Plastflöskur Ölgerðarinnar úr 50% endurunnu plasti

Ölgerðin ætlar að gera framleiðsluna umhverfisvænni.
Ölgerðin ætlar að gera framleiðsluna umhverfisvænni. mbl.is/Árni Sæberg

Allar plastflöskur sem notaðar eru undir drykkjarföng hjá Ölgerðinni verða framvegis úr 50% endurunnu plasti til að gera framleiðslu fyrirtækisins umhverfisvænni og grænni. Með því að taka í notkun endurunnið plast verður til eftirspurn eftir plasti í endurvinnslu og þannig skapast hringrás plastefna sem tryggir betri nýtingu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Ölgerðinni, sem fékk verkfræðistofuna Eflu til að reikna út kolefnislosun mismunandi umbúðagerða. Niðurstöður voru þær að innlend framleiðsla á drykkjarvörum er mun umhverfisvænni en en erlend framleiðsla hvað varðar kolefnislosun og munar að meðaltali um 400%.

Hvetur neytendur til að skila umbúðum til endurvinnslu

Það kom einnig í ljós að sú umbúðagerð sem felur í sér minnstu losun kolefnis er plastflaska sem unnin er úr endurunnu plasti. Ölgerðin stefnir að því að vörur fyrirtækisins hafi sem minnst áhrif á umhverfið og kynnir því til leiks þá umbúðaeiningu sem felur í sér minnstu losun kolefnislofttegunda. 

Á sama tíma og Ölgerðin skiptir í endurunnið plast er stöðugt verið að leita leiða til að minnka umbúðanotkun og ný tækni gerir fyrirtækinu kleift að létta flöskurnar sem notaðar eru. Sú breyting sem gerð er núna mun minnka plastnotkun um 30 tonn á ári.

Ölgerðin hvetur alla neytendur til að skila umbúðum til endurvinnslu og koma þannig í veg fyrir mengun sem stafar af plasti.

Skýrsla Eflu.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK