Spá 4,4% samdrætti í Svíþjóð

Búist er við minni samdrætti í Svíþjóð en víðast hvar …
Búist er við minni samdrætti í Svíþjóð en víðast hvar í Evrópu. AFP

Verg landsframleiðsla í Svíþjóð dregst saman um 4,4 prósent frá fyrra ári, gangi spá sænskra Samtaka atvinnulífsins (Svenskt Näringsliv) eftir, en hún var birt í gær. Spáin er á pari við spá sem sænska fjárreiðustofnunin (Ekonomistyrningsverket) gaf út í fyrradag. Er það minni samdráttur en gert var ráð fyrir í júní, þegar spáð var 6,1 prósent samdrætti.

Þrjár vikur eru síðan fjárlagafrumvarp næsta árs var kynnt en þar er gert ráð fyrir að 100 milljörðum sænskra króna (15.400 ma. ISK) verði varið í að örva hagkerfi landsins vegna kórónukreppunnar. Samdrátturinn í Svíþjóð er svipaður þeim sem spáð hefur verið á heimsvísu, 4,5%, en ívið lægri en í öðrum Evrópulöndum. Þannig er 7,9 prósenta samdrætti spáð á evrusvæðinu.

Nýgengi smita undir meðaltali ESB

Í fréttaskýringu sænska ríkissjónvarpsins er því haldið fram að æ fleiri þori nú að setja fram jákvæðari spár en áður hafði verið gert ráð fyrir þar sem ólíklegra þyki að lönd grípi til algjörs útgöngubanns á ný, jafnvel þótt útbreiðsla kórónuveirunnar nái sömu hæðum og í vor. Hugsanleg skýring sé að það hafi sýnt sig að efnahagslegar afleiðingar slíkra aðgerða séu of miklar.

Nýjum kórónuveirutilfellum hefur fækkað nokkuð í Svíþjóð að undanförnu, og er nýgengi smita, fjöldi nýrra smita síðustu tvær vikur á hverja 100.000 íbúa, nú 29,4 eða undir meðaltali ESB. Til samanburðar er talan á Íslandi 22,1 (17,7 án landamæraskimunar) en 58,1 í Danmörku þar sem smitum hefur fjölgað mikið upp á síðkastið. 453 greindust með veiruna í Danmörku í gær og hafa aldrei verið fleiri á einum degi.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK