Útboðið gengið ótrúlega vel

Umframeftirspurn var eftir bréfum í Icelandair í hlutafjárútboði félagsins, sem …
Umframeftirspurn var eftir bréfum í Icelandair í hlutafjárútboði félagsins, sem lauk í gær. mbl.is/Sigurður Bogi

„Ég held að það sé öruggt að segja að útboðið hafi gengið ótrúlega vel hjá þeim.“ Þetta segir Stefán Þór Bogason, greinandi hjá greiningarfyrirtækinu IFS, um nýafstaðið hlutafjárútboð Icelandair.

Stefnt var að því að safna 20 milljörðum króna í hlutafé, með möguleika á að hækka þá fjárhæð í 23 milljarða. Alls bárust yfir 9.000 áskriftir að verðmæti 37,3 milljarða króna en stjórn félagsins samþykkti áskriftir upp á 30,3 milljarða. Núverandi hluthafar og þeir sem sóttu um áskriftir undir einni milljón króna fá þær að fullu, en áskriftir annarra verða skertar um 37% enda aðeins 23 milljarðar í boði.

Stefán segir athyglisvert hve mikil eftirspurn hafi verið frá almennum fjárfestum, þ.e. ekki atvinnufjárfestum, en eignarhlutur þeirra verður eftir útboð um 50%.

Athygli vekur að áskriftum upp á sjö milljarða var hafnað í útboðinu en það er sama upphæð og bandaríska athafnakonan Michelle Edwards hugðist kaupa fyrir. Hefur Fréttablaðið það fyrir satt að tilboðinu hafi verið hafnað þar sem Edwards gat ekki reitt fram tryggingu fyrir því að hún hefði nægt lausafé til að geta staðið við kaupin.

Stefán segist ekki vita hvað kom upp í því máli, en bendir á að stjórn Icelandair hafi leyfi til að hafna tilboðum trúi þeir ekki að fjárfestir geti staðið við tilboð sitt. Spurður hvort mögulegt sé að viðskiptasaga Edwards hafi haft áhrif, segist hann ekki geta tjáð sig um það. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hefur ekki náðst í Pál Ágúst Ólafsson, lögmann Edwards.

Þótt tekist hafi að tryggja fjármögnun félagsins verður róðurinn eftir sem áður þungur þar til bóluefni gegn kórónuveirunni kemur á markað og flugmarkaðurinn tekur við sér á ný, segir Stefán. Þá eigi eftir að koma í ljós hvenær MAX-vélar félagsins geti farið á loft, en Icelandair gerir ráð fyrir að það verði í lok þessa árs.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK