Væntir þess að heyra frá Icelandair á mánudag

Michelle Roosevelt Edwards ætlar sér að koma WOW air í …
Michelle Roosevelt Edwards ætlar sér að koma WOW air í loftið þegar skilyrði til flugrekstrar batna. mbl.is/Kristinn Magnússon

Michelle Roosevelt Edwards væntir þess að heyra á morgun, mánudaginn 21. september, um það hvort áskrift hennar upp á sjö milljarða króna í hlutafjárútboði Icelandair Group hafi verið hafnað eða ekki. Áætlanir um að koma WOW air í loftið standa enn óbreyttar. Þetta segir lögmaður hennar í samtali við mbl.is.

Komið hefur fram að Edwards hafi skráð sig fyrir stórum hlut í hlutfjárútboðinu en í tilkynningu frá Icelandair kom fram að félagið hefði ákveðið að hafna einni áskrift að útboðinu loknu.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, vildi ekki tjá sig um einstaka áskriftir þegar hann var spurður hvort áskrift Edwards hefði verið hafnað. Fjárhæð áskriftar Edwards kemur þó heim og saman við þá áskrift sem var hafnað og því þykir liggja í augum uppi að um hennar áskrift sé að ræða.

„Maður hefði vænst þess að þeir sem tækju þátt í útboðinu fengju einhverjar meldingar um það hvort því yrði tekið eða ekki en það hafa hvorki komið meldingar frá félaginu né umsjónaraðilum þess,“ segir Páll Ágúst Ólafsson, lögmaður Edwards, í samtali við mbl.is.

Spurður hvort það sé undarlegt segir Páll að formlegt ferli hafi átt sér stað og hann hefði áætlað að því formlega ferli lyki með því að aðilum væri tjáð „hvort þeir væru með að fullu, að einhverju leyti eða engu leyti“.

Hann bendir á að það eigi að borga fyrir áskriftarhlutina 23. september og skjólstæðingur hans hljóti að heyra frá Icelandair á morgun. „Ég geri ekki ráð fyrir öðru, við hljótum að heyra frá félaginu á mánudaginn.“

Þrátt fyrir vilja Edwards til að verða stór hluthafi í Icelandair stendur enn til að reisa flugfélagið WOW air við og koma því í loftið þegar skilyrði til flugrekstrar verða hagstæðari.

„Við vonum að það fari að birta til í veirumálum þannig að við getum farið að koma WOW air í loftið. Hvenær það verður nákvæmlega og í hvaða mynd á eftir að koma í ljós,“ segir Páll.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK