8,9% útlána fyrirtækja í vanskilum og aukning viðbúin

Vanskil fyrirtækja við viðskiptabankana námu í lok júlí 8,9% og …
Vanskil fyrirtækja við viðskiptabankana námu í lok júlí 8,9% og höfðu hækkað úr 4,8% á sama tíma í fyrra. Viðbúið er að vanskilin aukist mikið á næstunni þegar greiðsluhléi vegna faraldursins lýkur. mbl.is/Arnaldur Halldórsson

Vanskil á lánum til fyrirtækja voru í lok júlí 8,9% og höfðu aukist talsvert frá því á sama tíma í fyrra þegar vanskilin voru 4,8%. Hækkun hlutfallsins felst fyrst og fremst í aukningu vanefnda hjá fyrirtækjum sem starfa í þjónustugeiranum og hjá fasteignafélögum. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu fjármálastöðugleikanefndar Seðlabanka Íslands sem birt var í morgun.

Seðlabankinn telur viðbúið að vanskil muni aukast á komandi mánuðum samhliða því sem greiðsluhlé vegna farsóttarinnar falla úr gildi. Gjaldþrotum fyrirtækja hefur fjölgað á árinu miðað við sama tíma í fyrra en fjölgunin einskorðast ekki sérstaklega við mánuðina eftir útbreiðslu farsóttarinnar þar sem gjaldþrot koma fram með verulegri tímatöf. Á fyrstu sjö mánuðum ársins var 601 fyrirtæki tekið til gjaldþrotaskipta samanborið við 448 á sama tímabili í fyrra. Aukning gjaldþrota er mest í ferðaþjónustu og byggingarstarfsemi.

Hlutastarfaleiðin sem kynnt var eftir að faraldurinn skall á var í júlí nýtt af 1.400 fyrirtækjum, en þegar mest var í apríl nýttu 6.500 fyrirtæki leiðina. Var úrræðinu framlengt út október. Þá hafði ríkið um miðjan september veitt 600 stuðningslán upp á 4,7 milljarða og tvö viðbótarlán. Á sama tíma hafði 998 fyrirtækjum verið veittur lokunarstyrkur upp á einn milljarða. Um miðjan september voru jafnframt rúmlega eitt þúsund fyrirtæki með sérstakan greiðslufrest á lánum vegna farsóttarinnar.

Samtals voru um miðjan september 8,6% af heildarútlánum viðskiptabankanna í greiðsluhléi vegna farsóttar, en það hlutfall fór hæst upp í 17% í júní.

Þrátt fyrir að gjaldþrotum fyrirtækja fjölgi hefur fyrirtækjum á vanskilaskrá fækkað milli ára. Hlutfall fyrirtækja á vanskilaskrá hefur lækkað í nær öllum atvinnugreinum sé horft yfir síðastliðið ár. Almennt eru fyrirtæki ekki skráð á vanskilaskrá fyrr en þau hafa verið í vanskilum í nokkurn tíma. Árangurslausum fjárnámum fyrirtækja hefur einnig fækkað um rúmlega helming á fyrstu sjö mánuðum ársins miðað við sama tímabil í fyrra.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK