Hafa afskrifað 8% af útlánum til ferðaþjónustu

Seðlabankinn segir útlit fyrir að fjöldi fyrirtækja í ferðaþjónustu muni …
Seðlabankinn segir útlit fyrir að fjöldi fyrirtækja í ferðaþjónustu muni stöðva rekstur nú í haust og vetur þegar Íslendingar draga úr ferðalögum innanlands. mbl.is/Björn Jóhann

Viðskiptabankarnir hafa afskrifað 8% af útlánum sínum til ferðaþjónustunnar, en niðurfærsla á lánum til greinarinnar hefur aukist um 13 milljarða á fyrri helmingi þessa árs. Enn er þó umtalsvert af framkvæmdum í gangi í tengslum við ferðaþjónustuna, sérstaklega uppbygging á gistirýmum á höfuðborgarsvæðinu. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu fjármálastöðugleikanefndar Seðlabanka Íslands sem birt var í morgun.

16% viðbót við hótelrými í byggingu

Í júlí voru í byggingu 42 þúsund fermetrar gistirýmis á höfuðborgarsvæðinu, en það er um 16% af því gistirými sem er þegar til staðar. Segir í skýrslunni að aðstæður á hótelmarkaði hafi gjörbreyst til hins verra og megi telja líklegt að forsendur hluta verkefnanna séu brostnar, að minnsta kosti til skamms tíma litið og að verulegt offramboð sé nú til staðar á gistirými á höfuðborgarsvæðinu.

Hóflegur vöxtur hefur verið í fjárfestingu í öðru atvinnuhúsnæði að sögn bankans, en talsvert er einnig í byggingu af skrifstofuhúsnæði í miðbænum. Gæti það leitt til offramboðs á næstu misserum, en bent er á að þó faraldurinn hafi enn sem komið er haft takmörkuð áhrif á eftirspurn skrifstofuhúsnæðis geti faraldurinn haft þau áhrif að aukin vinna utan starfsstöðva leiði til minni eftirspurnar þegar frá líður.

23% lána ferðaþjónustu í frystingu

Frá því að stjórnvöld og fjármálafyrirtæki fóru að bjóða upp á sér greiðsluúrræði vegna farsóttarinnar hafa 63% ferðaþjónustufyrirtækja nýtt sér greiðsluhlé og tæplega 23% af útlánum viðskiptabankanna til ferðaþjónustu voru í greiðsluhléi um miðjan september. Eins og fyrr segir er hlutfall niðurfærsla af heildarkröfuvirði útlána til ferðaþjónustunnar nú tæplega 8% hjá viðskiptabönkunum.

Mikið af hótel- og gistirými er enn í byggingu á …
Mikið af hótel- og gistirými er enn í byggingu á höfuðborgarsvæðinu, en samtals er um að ræða 42 þúsund fermetra, eða 16% af núverandi gistirými á svæðinu. mbl.is/Eggert

Seðlabankinn telur óumflýjanlegt að atvinnuleysi í greininni verði mjög mikið á komandi mánuðum, en 25 þúsund manns störfuðu í ferðaþjónustu í byrjun árs.

Óvissa þegar greiðsluhlé rennur út

Segir í skýrslunni að ómögulegt sé að spá fyrir um hvenær ferðalög milli landa komast aftur í eðlilegt horf en horfurnar til skamms tíma séu ekki bjartar. „Útlit er fyrir að fjöldi fyrirtækja í greininni muni stöðva rekstur nú í haust og vetur þegar Íslendingar draga úr ferðalögum innanlands. Samkomulag fjármálafyrirtækja um greiðsluhlé til fyrirtækja tók gildi í lok mars sl. og var fyrirtækjum heimilað að fresta greiðslum í allt að sex mánuði. Greiðsluhlé fyrirtækja sem sóttu um í upphafi eru því byrjuð að renna út og óvíst er fyrir hversu mörg fyrirtæki úrræðið verður framlengt. Vanskil á útlánum gætu í kjölfarið aukist þar sem algjör tekjubrestur ríkir enn hjá fyrirtækjum í greininni. Horfur eru á að mörg ferðaþjónustufyrirtæki sæki um greiðsluskjól eða verði tekin til gjaldþrotaskipta á næstunni.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK