Lægra veðsetningarhlutfall nýrra lána

Veðsetningarhlutfall nýrra lána hefur farið lækkandi undanfarið, en það helgast …
Veðsetningarhlutfall nýrra lána hefur farið lækkandi undanfarið, en það helgast líklega að stórum hluta á endurfjármögnun fólks á núverandi lánum á betri vaxtakjörum. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Þrátt fyrir aukin útlán til íbúðakaupa hérlendis hefur veðsetningarhlutfall nýrra lána farið lækkandi og var meðaltal veðsetningahlutfalls nýrra lána 59% í júní samanborið við 67% í janúar. Þá voru 73% nýrra lántaka hjá viðskiptabönkunum nú með undir 70% veðsetningu, en í janúar var það hlutfall 49%. Hlutfall þeirra sem eru með um 80% veðsetningahlutfall lækkar einnig úr 24% í janúar í 10% í júní. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu fjármálastöðugleikanefndar Seðlabankans, sem kynnt var í morgun.

Það er þó ekki bara veðsetningarhlutfallið sem hefur þróast með jákvæðum hætti. Sömu er að segja hvað varðar hlutfall fasteignalána á móti árlegum rástöfunartekjum lántaka. Hefur fjöldi lána með hátt lánahlutfall haldið áfram að hækka. Þá hefur greiðslubyrðarhlutfall nýrra lána einnig lækkað, en það helst í hendur við lækkandi vexti og hækkandi launavísitölu. Er algengasta gildi á dreifingu þess hlutfalls 17,5% sem telst varfærið. Þá er lítill hluti nýrra lána með hátt greiðslubyrðarhlutfall.

Aukin útlánagæði íbúðalána og lægri vextir

Ný fasteignlán viðskiptabankanna hafa því í auknum mæli verið með lægra veðsetningarhlutfall, lægra hlutfall fasteignalána af ráðstöfunartekjum og minni greiðslubyrði.

Allt þetta hefur jákvæð áhrif á útlánagæði íbúðalána að sögn Seðlabankans og er þróunin sterk vísbending um að hærra hlutfall nýrra lántakenda sé að endurfjármagna eldri lán en áður, en vaxtakjör hafa lækkað undanfarið í kjölfar lækkunar meginvaxta Seðlabankans.

Þegar vegnir vextir nýrra óverðtryggðra fasteignalána viðskiptabankanna eru skoðaðir hafa þeir lækkað úr tæplega 5,3% í upphafi árs í 3,8% í júní. Á sama tíma hafa vegnir verðtryggðir vextir viðskiptabankanna lækkað úr 3,3% í 2,6%.

Íbúðalán fyrir 58 milljarða í frystingu, en fer fækkandi

Í skýrslunni kemur einnig fram að hlutfall þeirra sem hafi verið með lán í frystingu í júní hafi verið 6,1%, en um miðjan september var hlutfallið komið í 3,3%. Samtals hafi 5.500 umsóknir borist um greiðsluhlé frá því að opnað var fyrir slík í vor eftir að kórónuveirufaraldurinn kom upp. Eftirstöðvar fasteignalána sem hafa fengið greiðsluhlé frá því í vor eru tæplega 150 milljarðar, en heildarupphæð þeirra lána sem voru í greiðsluhléi í september var rúmlega 58 milljarðar.

Óverðtryggðu lánin sækja enn á

Nú um stundir er yfirgnæfandi meirihluti nýrra íbúðalána óverðtryggður með breytilegum vöxtum, enda hefur greiðslubyrði þeirra verið hagstæð við núverandi vaxtastig. Segir Seðlabankinn að aukin ásókn í þessi lán sé vísbending um að heimilin vænti þess að vextir haldist lágir næstu misserin. Þá hefur vægi þessara verðtryggðra lána í skuldum heimilanna lækkað nokkuð undanfarið, en um mitt síðasta ár voru 72% af skuldum heimilanna verðtryggð. Í lok annars ársfjórðungs þessa árs var hlutfallið komið niður í 67%.

Hrein ný útlán til heimila.
Hrein ný útlán til heimila. Graf/Seðlabanki Íslands

Seðlabankinn bendir á að aukning óverðtryggðra lána með breytilegum vöxtum geri heimilin næmari fyrir vaxtahækkunum þar sem hækkun vaxta eykur greiðslubyrði þeirra meira en flestra annarra lánsforma sem í boði eru.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK