Viðbúið að atvinnuleysi aukist enn frekar

Fjármálastöðugleikanefnd Seðlabankans gaf út nýja skýrslu í dag. Horfurnar þar …
Fjármálastöðugleikanefnd Seðlabankans gaf út nýja skýrslu í dag. Horfurnar þar eru ekki mjög bjartar. mbl.is/Ómar Óskarsson

Viðbúið er þó að atvinnuleysi aukist enn frekar og veruleg hætta er á að fjöldi fyrirtækja leiti eftir greiðsluskjóli eða fari í gjaldþrot á næstu mánuðum. Þetta á ekki síst við ferðaþjónustuna þar sem verulega breytt umhverfi blasir við. Mun hún ekki ná sér á strik á ný sem útflutningsatvinnugrein á meðan víðtækar takmarkanir eru til staðar á landamærum, bæði hér á landi og úti í heimi. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu fjármálastöðugleikanefndar Seðlabanka Íslands sem birt var í morgun.

Vegna kórónuveirufaraldursins hefur ferðaþjónustan átt mjög erfitt uppdráttar á þessu ári, en sem dæmi fækkaði gistinóttum á hótelum um 63% á tímabilinu júní til ágúst, helstu sumarmánuðirnir, samanborið við sama tímabil í fyrra. Þá lækkaði uppsöfnuð kortavelta fyrstu átta mánuði ársins um 64% milli ára. Hafa hótel treyst á innlenda ferðamenn, en fjöldi þeirra á hótelum þrefaldaðist milli ára.

Stór hluti mun loka í vetur

Staðan þegar komið er að haustinu og vetrinum er hins vegar enn verri að mati Seðlabankans. „Flest bendir til að stór hluti hótela sem enn eru opin muni loka nú í haust þegar ferðalögum Íslendinga fækkar, enda erlendir ferðamenn fáir. Fjöldi félaga í hótelrekstri, sem mörg hver hafa verið nær tekjulaus frá því í apríl, vinnur nú með lánastofnunum, leigusölum og öðrum kröfuhöfum að endurskipulagningu á eigin rekstri til að forðast greiðsluþrot.“

Óumflýjanlegt er að atvinnuleysi í greininni verði mjög mikið

„Óumflýjanlegt er að atvinnuleysi í greininni verði mjög mikið á komandi mánuðum en áætla má að tæplega 25 þúsund manns hafi starfað við ferðaþjónustu í byrjun árs. Starfsfólki í greininni hefur fækkað töluvert það sem af er ári og viðbúið er að áfram verði mikið um uppsagnir," segir að lokum í skýrslunni.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK