Íslenska auglýsingastofan gjaldþrota

Íslenska auglýsingastofan var eitt sinn til húsa á Laufásvegi, en …
Íslenska auglýsingastofan var eitt sinn til húsa á Laufásvegi, en hefur síðustu ár verið á Bræðraborgarstíg. Ljósmynd/Aðsend

Stjórn Íslensku auglýsingastofunnar hefur óskað eftir því að félagið verði tekið til gjaldþrotaskipta. Þetta staðfestir Hjalti Jónsson framkvæmdastjóri í samtali við mbl.is.

Um 25 starfsmenn hafa unnið hjá auglýsingastofunni sem á að baki 32 ár í rekstri.

Hjalti segir að það hafi verið þungt högg fyrir félagið í upphafi árs þegar Icelandair og dótturfélög þess hættu viðskipum við stofuna, en fyrirtækið samdi við aðra auglýsingastofu, Hvíta húsið. Icelandair og tengd félög hafi staðið undir 30-35 prósentum af tekjum stofunnar.

Við það bætast áhrif kórónuveirufaraldursins, sem juku enn á samdráttinn. 

Hafi alla tíð staðið í skilum við starfsmenn

Í tilkynningu frá Íslensku auglýsingastofunni segir að viðræður um endurskoðun á leigusamningi með hliðsjón af breyttum rekstrarforsendum hafi ekki borið árangur og hafi eigendur því þurft að taka þá þungbæru ákvörðun að óska eftir gjaldþrotaskiptum.

Aðspurður segir Hjalti að félagið hafi alla tíð staðið í skilum við starfsmenn; engar skuldir séu vegna launa, launtengdra gjalda, lífeyris- og stéttarfélagsgreiðslna „fyrr en þá þær sem kæmu til greiðslu um þessi mánaðamót“.

Lögum samkvæmt eiga kröfur vegna launa og launatengdra gjalda forgang á aðrar kröfur í þrotabú félaga, en viðbúið er að starfsmenn þurfi að sækja rétt sinn vegna uppsagnarfrests þangað.

Spurður út í stöðu markaðarins í heild, segist Hjalti eiga erfitt með að svara fyrir aðrar stofur.

„Það er sjálfsagt mismunandi hvernig stofur takast á við þessar aðstæður, tekjusamdrátt og mögulega kjarasamninga í uppnámi. En þegar ástandið er eins og það er núna er líklegt að fyrirtæki haldi frekar að sér höndum og það mun klárlega koma niður á félögum í markaðsmálum,“ segir Hjalti.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK