Gengið til samninga við Eykt upp á 8,7 milljarða

Í lok ágústmánaðar voru opnuð tilboð vegna byggingar meðferðarkjarna nýs …
Í lok ágústmánaðar voru opnuð tilboð vegna byggingar meðferðarkjarna nýs Landspítala. Nú hefur verið gengið til samninga við lægstbjóðanda. Ljósmynd/Ari Þorleifsson

Gengið hefur verið til samninga við Eykt vegna uppsteypu á meðferðarkjarna nýja Landspítalans, en um er að ræða framkvæmd sem Eykt bauð 8,68 milljarða í. Er áformað að framkvæmdir hefjist í nóvember og standi í um þrjú ár.

Fimm verktökum var boðin þátttökuheimild í útboðinu eftir forval og var Eykt sem fyrr segir hlutskarpast. Var tilboð Eyktar lægst, eða 82% af kostnaðaráætlun, sem var upp á 10,5 milljarða án virðisaukaskatts.

Jarðvegsframkvæmdum við grunn hússins er lokið, en það var ÍAV hf. sem sá um þann þátt. Verður nýr meðferðarkjarni 70 þúsund fermetrar að stærð.

„Þetta er einn af stærri áföngum í Hringbrautarverkefninu og unnið hefur verið að undirbúningi þessa skrefs um langan tíma,“ er haft eftir Gunnari Svavarssyni, framkvæmdastjóra NLSH ohf., í tilkynningu. „Fram undan er vissulega mikilvægt uppsteypuverkefni, en það eru einnig fjölmargir aðrir verkþættir handan við hornið, s.s. útboð á jarðvinnu rannsóknahússins og alútboð eftir forval á bílastæða- og tæknihúsinu, en forvalið verður opnað á morgun.“

Meðferðarkjarninn verður stærsta byggingin í Hringbrautarverkefninu, en í húsinu verður þungamiðjan í starfsemi Landspítalans. Meðferðarkjarninn er hugsaður út frá starfsemi bráða- og háskólasjúkrahúss, með áherslu á einfalt og skýrt fyrirkomulag ásamt greiðum leiðum milli starfseininga.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK