Rannsóknir gerðu hliðarafurð margra milljarða virði

Svona verkefni hefði líklega ekki getað þróast annars staðar en …
Svona verkefni hefði líklega ekki getað þróast annars staðar en innan háskóla enda var óhjákvæmilegt að rannsóknirnar yrðu tímafrekar og kostnaðarsamar, og stór biti að kyngja,“ segir Ágústa. Kristinn Magnússon

Saga íslenska nýsköpunarfyrirtækisins Zymetech sýnir að stundum getur leiðin í mark verið löng og ströng. Rekja má sögu fyrirtækisins allt aftur til 8. áratugarins þegar umræður kviknuðu bæði á þingi og í háskólasamfélaginu um leiðir til að skapa verðmæti úr hliðarafurðum íslensks sjávarútvegs og landbúnaðar. Ágústa Guðmundsdóttir er rannsóknastjóri Zymetech og prófessor emerita við HÍ og þekkir þessa sögu vel:

„Fyrirtækið byrjar að taka á sig mynd árið 1985 þökk sé rannsóknarfjármagni sem var úthlutað í gegnum viðeigandi stofnanir. Jón Bragi Bjarnason var þá nýkominn heim til Íslands að loknu doktorsnámi í lífefnafræði erlendis og hefst handa við rannsóknir á ensímum, einkum úr fiskslógi. Ég kom að verkefninu árið 1988 þá nýkomin úr doktorsnámi í örverufræði frá Bandaríkjunum. Rannsóknir á minni rannsóknastofu fjölluðu um að klóna genin fyrir ensímin úr þorskinum, skilgreina þau og framleiða þau í bakteríum og gersveppum með varaforða fyrir ensímin í huga,“ segir hún. „Áherslan í mínum rannsóknum og samstarfsmanna minna hjá Zymetech hefur verið að rannsaka áhrif ensímanna á veirur og bakteríur en út frá þeim rannsóknum varð til munnúðinn PreCold gegn kvefi.“

Fimmtán ár liðu frá því rannsóknarstarfið hófst og fyrsta vara Zymetech kom á markað, en það var húðáburðurinn Penzím. „Jón Bragi lést í byrjun árs 2011. Árið 2012 var gert átak í að koma markaðsmálunum og alþjóðavæðingu Zymetech af stað í samstarfi við sænska ráðgjafa og Guðmund Pálmason, stjórnarformann Zymetech og framkvæmdastjóra Strax AB. Fram að þeim tíma voru vörur okkar að mestu seldar á Íslandi,“ útskýrir Ágústa.

Ágústa segir langan rannsóknar- og þróunartíma m.a. hafa skýrst af því að aðstandendur Zymetech renndu dálítið blint í sjóinn. „Í upphafi vorum við ekki viss um hvort ensímin myndu eiga erindi við matvælaiðnaðinn eða henta til lækningavöru eða lyfjaframleiðslu. Varð síðan úr að einblína á ensím sem nýta mætti í lækningavörur. Ef við værum að byrja í dag þá hefðum við kannski getað komist hraðar á endastöð, en vinnan var svo sannarlega stanslaus og átti eftir að reynast okkur vel að hafa gert ítarlegar rannsóknir og tilraunir og þannig öðlast djúpa þekkingu á ensímunum.“

Orðin milljarða virði

Smám sama bættist við vöruúrvalið og fann Zymetech góðan samstarfsaðila í sænska fyrirtækinu Enzymatica og endaði með því að félögin sameinuðust árið 2016 og varð þá til félag metið á nokkra milljarða króna. Er gaman að segja frá því að hlutabréfaverð hins sameinaða félags, sem skráð er á markað í Svíþjóð undir nafni Enzymatica, hefur hækkað hratt á þessu ári og ríflega fjórfaldast frá ársbyrjun. Þeir sem tóku þátt í uppbyggingunni með fjármagni sínu og vinnu hafa því uppskorið árangur erfiðis síns.

Nýjasta varan, munnúðinn PreCold sem Ágústa nefndi hér að ofan, er markaðssett sem ColdZyme í Svíþjóð og dregur úr kvefeinkennum og særindum í hálsi. „Við vorum rétt í þessu að fá birta vísindagrein í ritrýndu alþjóðlegu vísindatímariti, Journal of Medical Virology, um rannsóknir á áhrifum ColdZyme á kórónuveiruna alræmdu í tilraunum á rannsóknastofum, og komu rannsóknirnar vel út,“ segir Ágústa.

Spurð hvernig stofnendum og starfsfólki Zymetech tókst að þrauka þann langa tíma sem leið frá upphafi rannsókna þar til vörur komu á markað segir Ágústa að fyrirtækið hefði sennilega aldrei orðið til ef hún, Jón Bragi og frábærir samstarfsfélagar hefðu ekki getað samtvinnað ensímrannsóknirnar við störf sín sem fræðimenn hjá Háskóla Íslands og í ofanálag notið góðs stuðnings Tækniþróunarsjóðs og AVS rannsóknasjóðs. „Svona verkefni hefði líklega ekki getað þróast annars staðar en innan háskóla enda var óhjákvæmilegt að rannsóknirnar yrðu tímafrekar og kostnaðarsamar, og stór biti að kyngja jafnvel þó að líklegt væri að vinnan og fjárfestingin gæti gefið mjög mikið af sér þegar upp væri staðið,“ segir hún. „Inn á milli komu erfið tímabil þar sem peninga skorti og þá var fátt annað í stöðunni fyrir stofnendurna en að taka lán og leggja eigin heimili að veði.“

Mikilvægt að vera á Íslandi

Það hefði kannski mátt selja starsfemina og rannsóknirnar miklu fyrr, og innleysa ágætishagnað um leið, en Ágústa segir hópinn á bak við Zymetech frekar hafa viljað fara alla leið og byggja upp stöndugt fyrirtæki með umsvifamikinn rekstur á Íslandi. „Það skiptir okkur máli að geta fjölgað störfum hér á landi eftir því sem umsvifin aukast og eftirspurnin með. Auðvitað er ágætt að hagnast á þessari vinnu en peningar voru aldrei það sem dreif okkur áfram heldur löngunin til að ná árangri í því sem við vorum að fást við.“

Að byggja reksturinn sem tengist ensímframleiðslu upp á Íslandi helst líka í hendur við það að tryggja gæði vörunnar og leggja grunninn að frekari vöruþróun og rannsóknum. Ágústa bendir á að þó að það mætti eflaust setja upp sams konar fyrirtæki í landi þar sem laun og skattar eru lægri þá skipti höfuðmáli að hafa greiðan aðgang að fersku hráefni frá íslenskum sjávarútvegi og geta haft nánar gætur á hverju einasta skrefi. „Að hafa vinnsluna á Íslandi auðveldar okkur að hafa fulla stjórn á öllu ferlinu, og byggja jafnt og þétt ofan á þá þekkingu sem þegar hefur orðið til innan fyrirtækisins. Viðskipta-, markaðsmál, skráningar og stórar klínískar rannsóknir eru hins vegar á hendi Enzymatica í Svíþjóð.“

Fari varlega af stað

Eflaust eru sumir sem lesa þessa grein í sömu sporum og Ágústa þegar hún ásamt Jóni Braga stofnaði Zymetech fyrir um 20 árum, og spyrja sig hvort það sé þess virði að taka stökkið og gera áhugaverða viðskiptahugmynd að fyrirtæki. Þetta er skref sem margir eru hræddir við að taka, sérstaklega ef það kallar á að kveðja gott starf og örugg laun, enda aldrei hægt að vera viss um að viðskiptahugmyndin gangi upp.

Ágústa er ekki á því að frumkvöðlar eigi að flýta sér sem mest, heldur ráðleggur hún fólki þvert á móti að fara varlega í sakirnar – í það minnsta þegar kemur að líftækni – og byrja á því að meta vandlega og með raunhæfum hætti hvort vit sé í verkefninu: „Ég mæli með að taka nokkur ár í það að sækja um styrki, gera tilraunir í smáum stíl og sjá hvernig málum vindur fram,“ segir hún.

Ágústa bendir á að í þessu ferli muni upphaflega hugmyndin eflaust taka miklum breytingum, gloppur og gallar koma í ljós en ný tækifæri birtast. „Í okkar tilviki voru örugglega hundrað skref frá því við hugleiddum að þróa ensím fyrir matvælaiðnað þar til við sáum að hyggilegast væri að leggja áherslu á lækningavörur.“

Þá ættu frumkvöðlar ekki að vera hræddir við að leyfa sér að dreyma og hugsa stórt. Ágústa segir að draumurinn um glæstan rekstur og ríkulega uppskeru séu eðlilegur hluti af því að stofna fyrirtæki og draumarnir hjálpi fólki að þrauka og takast á við áskoranirnar. „Draumar eru alveg nauðsynlegir og jafnvel má segja að frumkvöðull þurfi stundum að vera svolítið veruleikafirrtur.“

Jafnframt minnir Ágústa á að fjármögnunar- og styrkjaumhverfið er allt annað í dag en þegar Zymetech var að fæðast, og auðveldara en áður að fá styrktarsjóði eða fjárfesta til að bæði koma sprotafyrirtækjum á legg og leyfa frumkvöðlunum að greiða sér laun. „Það þýðir að þessi fyrstu ár þar sem verið er að móta reksturinn og gera hann arðbæran þurfa ekki að vera algjör hungurganga fyrir frumkvöðulinn.“

Þessi grein birtist upphaflega 1. október síðastliðinn í sérblaði Morgunblaðsins og Samtaka iðnaðarins um Iðnþing 2020.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK