Útlit fyrir 150 milljarða tap

AFP

Stjórnendur EasyJet eiga von á því að tap flugfélagsins nemi allt að 845 milljónum punda, sem svarar til 150 milljarða króna, fyrir skatta á nýliðnu rekstrarári. Ástæðan fyrir slæmri afkomu eru afleiðingar kórónuveirufaraldursins.

Í spá félagsins er gert ráð fyrir að tapið fyrir skatta nemi 815-845 milljónum punda en rekstrarárinu lauk 30. september. Gert er ráð fyrir því að staðan verði áfram slæm og að flugferðir verði um fjórðungur af því sem til stóð á yfirstandandi ársfjórðungi, frá 1. október til 31. desember 2020. 

Fyrsta tapárið

Þetta er í fyrsta skipti í sögu EasyJet sem flugfélagið er rekið með tapi. Forstjóri félagsins, Johan Lundgren, hvetur ríkisstjórn Bretlands til þess að styðja betur við bakið á flugfélögum landsins sem öll berjast í bökkum vegna COVID-19.

„Í upphafi þessa árs hefði enginn getað ímyndað sér hvaða áhrif faraldurinn myndi hafa á flugiðnaðinn,“ segir Lundgren. Ekkert lát sé á erfiðleikum flugfélaganna og staðan sé verri en nokkurn tíma áður í sögunni. Því verði bresk stjórnvöld að grípa inn og gera meira til að styðja flugiðnaðinn þannig að hann geti tekið þátt í endurreisn hagkerfisins. 

Þetta ár er markar tímamót í 25 ára sögu EasyJet þar sem flugfélagið hefur aldrei verið rekið með tapi segir Lundgren og vísar þar til ársafkomu ekki einstakra ársfjórðunga.

Allur flugfloti EasyJet var kyrrsettur 30. mars þegar Bretar settu nánast á útgöngubann. Frá því um miðjan júní hefur flugfélagið verið í rekstri en aðeins takmarkað.

EasyJet er að fækka störfum um 4.500 sem er tæplega þriðjungur starfsmanna félagsins og heildarfjöldi farþega er brot af því sem áður hefur verið eða 48 milljónir.

AFP
mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK