Munum ekki geta byggt á sömu forsendum

Ingólfur minnir á að með aukinni framleiðni skapa störf okkar …
Ingólfur minnir á að með aukinni framleiðni skapa störf okkar meiri verðmæti og auka um leið efnahagsleg lífsgæði. Arnþór Birkisson

Miðað við spár um þróun fólksfjölda í landinu þarf íslenskt atvinnulíf að hafa skapað um 60.000 ný störf árið 2050. Þetta jafngildir um tvö þúsund störfum á ári að meðaltali eða rétt um 40 á viku. „Á þessum þrjátíu árum má reikna með að um 140.000 manns komi inn á vinnumarkaðinn á meðan 95.000 fara út af vinnumarkaði, s.s. fyrir aldurs sakir. Þar munar um 45.000 störfum og á þá eftir að bæta við þeim hópi fólks sem hefur misst vinnuna að undanförnu. Bráðavandinn er atvinnuleysið. Atvinnuleysi er afar hátt hér á landi eða rétt um 9% og brýnt verkefni að draga úr því hið fyrsta,“ segir Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins.

Þegar litið er til reynslu annarra þjóða er ljóst að besta leiðin til að skapa ný og vel launuð störf er að hvetja til hugverkadrifinnar nýsköpunar. Ingólfur bendir á að undanfarna áratugi hafi vöxtur íslensks efnahagslífs einkum byggst á aukinni nýtingu náttúruauðlinda: „Ég er þeirrar skoðunar að við þurfum að gera þetta með öðrum hætti en við höfum gert á síðustu áratugum. Það má segja að við séum stödd á krossgötum. Ef litið er til fortíðar þá hefur okkur gengið nokkuð vel að skapa góð störf og mikil verðmæti með því að nýta þær náttúruauðlindir sem við höfum yfir að ráða, og tekist að stuðla að mjög góðum efnahagslegum skilyrðum borið saman við aðrar þjóðir. Við munum samt ekki geta byggt atvinnulífið á sömu forsendum á komandi áratugum og liggur þá beinast við að nýta hugvitið sem okkar helsta tæki til að skapa auknar tekjur, fleiri störf og og láta hagkerfið vaxa.“

Verðmætasköpun lykilatriði

Til lengdar byggist aukinn kaupmáttur á vaxandi framleiðni, segir Ingólfur. „Með aukinni framleiðni skapa störf okkar meiri verðmæti. Framleiðni er því í lykilhlutverki þegar kemur að því að auka efnahagsleg lífsgæði. Sagan kennir að í nýsköpun liggja ótal tækifæri til aukinnar framleiðni. Sagan kennir einnig að þeir sem eru fremstir á sviði nýsköpunar uppskera aukna verðmætasköpun og meiri efnahagsleg lífsgæði. Það er eðli nýsköpunar að ýta undir framleiðnivöxt og ekki bara fjölga störfum heldur skapa mjög verðmæt störf.“

Þó að 60.000 störf kunni að virðast mjög stór tala fyrir 367.000 manna þjóð og vinnumarkað þar sem rétt tæplega 200 þúsund eru starfandi þá segir Ingólfur að reynslan sýni að um mjög gerlegt markmið sé að ræða. „Á síðustu þremur áratugum bjó íslenskt atvinnulíf til 67.000 ný störf. Ekki nóg með það heldur voru þetta verðmæt störf sem endurspegluðu hvernig atvinnulífið nýtti sér tæknibreytingar til að auka framleiðni og skapa meiri verðmæti, svo að kaupmáttur jókst um 90% á þessu tiltölulega stutta skeiði.“

Ingólfur segir margt benda til að Ísland hafi alla burði til að verða öflugt nýsköpunarland. Hann nefnir sem dæmi að sum verðmætustu fyrirtæki landsins byggi rekstur sinn á hugvitsdrifinni nýsköpun og hafi á aðeins nokkrum áratugum tekist að koma sér í sterka stöðu á alþjóðamarkaði, hvert á sínu sviði. „Þjóðin hefur sýnt það á mörgum sviðum að hún býr yfir vissum nýsköpunarhæfileikum. Það býr í okkur ríkur nýsköpunarkraftur sem við þurfum að virkja betur. Verkefnið er stórt en 60.000 störf á þrjátíu árum jafngildir því að við þurfum að skapa á hverju ári á þessum tíma 100 Omnom, 10 CCP, 4 Össur eða 3 Marel. Við þurfum að skapa skilyrði fyrir fyrirtækin þannig að þau fari í aukna nýsköpun. Þannig sköpum við aukin verðmæti og fleiri störf.“

Greinin birtist upphaflega þann 1. október s.l. í sérblaði Morgunblaðsins og Samtaka iðnaðarins um Iðnþing 2020.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK