Atlanta stofnar flugfélag á Möltu

Starfsemi Atlanta á Íslandi verður óbreytt.
Starfsemi Atlanta á Íslandi verður óbreytt.

Flugfélagið Atlanta ehf., sem er með höfuðstöðvar í Hlíðasmára í Kópavogi, hefur ákveðið að stofna nýtt flugfélag á Möltu. Nafn félagsins verður Air Atlanta Europe og mun að sögn Baldvins Más Hermannssonar, forstjóra Air Atlanta, veita félaginu ýmis viðbótarréttindi sem snúa bæði að loftferðaréttindum og skattamálum.

Baldvin segir að þó að fraktvélar félagsins séu í dag með 55-60% meiri nýtingu en í meðalári og félagið sé nú með níu slíkar vélar í rekstri, þá muni sú nýting færast í fyrra horf um leið og farþegavélafloti heimsins hefur sig til flugs á ný. Á þeim tímapunkti þurfi Atlanta að vera tilbúið með samkeppnishæfan rekstur, ef koma á farþegaflutningum aftur af stað. Að öðru leyti verði félagið ekki sjálfbært til framtíðar.

Borguðu milljarð í skatta árið 2019

Með því að stofna flugfélag á Möltu segir Baldvin að Atlanta verði samkeppnishæfara á þessum markaði, en nú þarf félagið að greiða 5% vörsluskatt í Sádi-Arabíu. Árið 2019 borgaði félagið jafnvirði eins milljarðs íslenskra króna í slíka skatta í landinu meðan helstu keppinautar þurftu þess ekki.

Farþegaflutningar Atlanta í pílagrímaflugi í Sádi-Arabíu standa alla jafna undir 65-70% af heildartekjum flugfélagsins. „Ástæða þess að við greiðum þessa viðbótarskatta í landinu er að það er enginn tvísköttunarsamningur í gildi milli Íslands og Sádi-Arabíu. Önnur evrópsk flugfélög sem við eigum í samkeppni við í Sádi-Arabíu búa að því að heimalönd þeirra eru með tvísköttunarsamninga og þurfa ekki að greiða þessa skatta,“ segir Baldvin.

Kórónuveirufaraldurinn gerir málið enn brýnna þar sem stjórnvöld í Sádi-Arabíu íhuga hækkun skattsins.

Spurður að því hvort yfirvöld í ríkjunum tveimur hafi reynt að ná saman um tvísköttunarsamning, segir Baldvin að Ísland hafi reynt að koma á viðræðum um slíkan samning, en enginn árangur hafi orðið af því enn sem komið er.

Lestu meira um málið í ViðskiptaMogganum í dag.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK