Búast við að þurfa að ráða fleiri

Grettir Gautason, Una Baldvinsdóttir og Jónas Unnarsson.
Grettir Gautason, Una Baldvinsdóttir og Jónas Unnarsson.

H:N Markaðssamskipti hafa ráðið þrjá nýja starfsmenn vegna aukinna umsvifa. Starfsmennirnir eru Grettir Gautason, Jónas Unnarsson og Una Baldvinsdóttir. Öll þrjú hafa þegar hafið störf.

„Við erum í þeirri öfundsverðu stöðu að verkefnum og viðskiptavinum hefur fjölgað á þessum skrítnu tímum sem heimurinn er að ganga í gegnum. Verkefnin er stór og fjölbreytt og því mikilvægt fyrir okkur að bæta við hópinn reynslumiklu og hæfileikaríku fólki,“ segir Kristján Hjálmarsson, framkvæmdastjóri H:N Markaðssamskipta, í fréttatilkynningu.

„Ef fram sækir sem horfir þurfum við að ráða enn fleiri starfsmenn á komandi mánuðum svo það eru svo sannarlega spennandi tímar fram undan – eins skrýtið og það hljómar í miðjum faraldri.“

Grettir Gautason, almanna- og viðskiptatengill, er með BA-gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands ásamt því að vera að ljúka MA-námi í almannatengslum og markaðssetningu við Universidade Fernando Pessoa. Grettir starfaði áður sem sölu- og verkefnisstjóri hjá Kjarnanum, vefmiðli.

Jónas Unnarsson, grafískur miðlari, starfaði áður hjá Íslensku auglýsingastofunni sem hönnuður og þar áður sem umbrotsmaður hjá Fréttablaðinu. Jónas lauk sveinsprófi í grafískri miðlun við Iðnskólanum í Reykjavík árið 2004.

Una Baldvinsdóttir, grafískur hönnuður, er með BA-gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands, MA-gráðu í textílhönnun frá Swedish School of Textiles og MA-gráðu í Visual Design frá SPD Milano. Una hefur meðal annars unnið fyrir þýska hönnunarfyrirtækið BLESS og Samband íslenskra myndlistarmanna.

H:N Markaðssamskipti er ein af elstu auglýsingastofum landsins og fagnaði 30 ára afmæli í ár. Nú starfa 26 hjá stofunni á Íslandi og útibúi stofunnar í Brighton á Englandi og í Svíþjóð. 

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK