Viðskiptavinir TR fá rétt greitt

Sigrún Jónsdóttir.
Sigrún Jónsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Tryggingastofnun segir að það sé afar villandi að halda því á lofti að mánaðarlegar greiðslur TR séu rangar eða að útreikningar séu rangir. Viðskiptavinir fái rétt greitt í mánaðarlegum greiðslum sínum á grundvelli fyrirliggjandi tekjuáætlunar  hvers og eins lífeyrisþega. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sigrúnu Jónsdóttur, framkvæmdastýru TR, í kjölfar fjölmiðlaumfjöllunar um nýbirta skýrslu Ríkisendurskoðunar um Tryggingastofnun og stöðu almannatrygginga. 

Tilkynningin er svohljóðandi:

„Vegna fjölmiðlaumfjöllunar um nýbirta skýrslu Ríkisendurskoðunar um Tryggingastofnun og stöðu almannatrygginga vill TR koma því á framfæri að viðskiptavinir fá rétt greitt í mánaðarlegum greiðslum sínum á grundvelli fyrirliggjandi tekjuáætlunar hvers og eins lífeyrisþega. Það er afar villandi að halda því á lofti að mánaðarlegar greiðslur TR séu rangar eða að útreikningar séu rangir. 

Við árlegt uppgjör fyrir liðið almanaksár kemur í ljós mismunur til hækkunar eða lækkunar vegna breyttra tekna á liðnu ári. Samkvæmt lagaheimildum er mismunurinn gerður upp (greiddur út eða innheimtur) þegar allar árstekjur liðins árs liggja fyrir. Uppgjörið á sér yfirleitt stað í maí - júní og þá þurfa viðskiptavinir annaðhvort að greiða til baka eða fá greidda inneign. Þessu má líkja við árlegt uppgjör hjá Skattinum.

Það er mjög miður að umræða um greiðslur Tryggingastofnunar hafi þróast með þessum hætti.

Markmið okkar sem störfum hjá TR er nú sem fyrr að þjónusta viðskiptavini okkar eftir bestu getu með hag þeirra og velferð að leiðarljósi.

Uppbyggileg umræða um lífeyriskerfið er mikilvæg, því ítrekum við að Tryggingastofnun fagnar úttekt Ríkisendurskoðunar á stofnuninni og stöðu almannatrygginga. Vonir eru bundnar við að hún leiði til úrbóta og einföldunar á flóknu kerfi, lífeyrisþegum til hagsbóta.“

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK