Fyrsta Covid-tengda málið fyrir dómstóla

Hverfisbarinn.
Hverfisbarinn. Ljósmynd/Visitor's Guide

Hverfisbarinn ehf. hefur stefnt Coca Cola European Partners Ísland til greiðslu tæplega 8,7 milljóna króna. Málið varðar að hluta hvaða áhrif Covid-19-faraldurinn á að hafa á samninga, hvort þeir standi samkvæmt efni sínu eða hvort aðilar geti losnað undan skyldum samkvæmt þeim. 

Ljóst er að dómur í málinu gæti verið þýðingarmikill og fordæmisgefandi, en Viðskiptablaðið greindi frá málinu í dag.  

Málið varðar samning sem fyrrverandi rekstraraðili Hverfisbarsins og Coca Cola, áður Vífilfell, gerðu með sér í apríl 2016. Fól samningurinn meðal annars í sér að Hverfisbarnum bar að taka þátt í markaðskynningu og framsetningu á vegum drykkjarframleiðandans. Í staðinn skyldi veitingastaðurinn fá sjö milljónir króna og frívörur að ákveðinni upphæð. Gjalddagi þeirrar upphæðar er 10. maí ár hvert. 

Í samningnum var meðal annars að finna svohljóðandi ákvæði: „Hvorugur samningsaðila skal teljast bótaskyldur né öðlast rétt til að rifta eða slíta samningi þessum vegna tafa eða annars konar vanefnda ef slíkar vanefndir eru afleiðing af verkföllum, styrjöldum, náttúruhamförum eða annars konar óviðráðanlegum atvikum (force majeure).“

Samkvæmt tilmælum yfirvalda skellti Hverfisbarinn í lás 23. mars vegna útbreiðslu kórónuveirufaraldursins. Varði lokunin í rúma tvo mánuði áður en reglur voru rýmkaðar að nýju. 

Gjalddagi kröfu Hverfisbarsins á hendur Coca Cola lenti á því tímabili sem barinn var lokaður, en í aprílbyrjun leituðu forsvarsmenn Hverfisbarsins eftir því að upphæðin yrði greidd fyrir gjalddaga. Var því hafnað. Síðasta dag aprílmánaðar gaf barinn síðan út reikning fyrir upphæðinni, en Coca Cola hefur hafnað greiðsluskyldu.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK