Íslensk hátækni í norsku samstarfi

Tölvuteikning sem sýnir hvernig verksmiðjan gæti litið út.
Tölvuteikning sem sýnir hvernig verksmiðjan gæti litið út. Tölvuteikning/ONNO ehf.

Norska landsvirkjunin Statkraft, kísilmálmframleiðandinn Finnfjord og íslenska hátæknifyrirtækið Carbon Recycling International (CRI) vinna nú í sameiningu að því að þróa fyrstu verksmiðjuna sem framleiðir rafeldsneyti í fullri stærð. Þetta kemur fram í tilkynningu frá CRI.

„Verksmiðjan mun afkasta 100.000 tonnum af rafmetanóli á ári. Hún mun hagnýta koltvísýring (CO2) frá kísilmálmverksmiðju Finnfjord í samnefndum firði og vetni sem framleitt verður með rafgreiningu á vatni með endurnýjanlegri orku af norska landsnetinu. CRI leggur til tæknina, sem þróuð var hér á landi undir vörumerkinu "Emissions-toLiquids" (ETL) [sem vísar til þess að hún framleiðir fljótandi eldsneyti úr úrgangslosun]. Ferlið hefur þegar verið reynt með ágætum í verksmiðju CRI við Svartsengi. Búnaðurinn í Finnfjord verður byggður á uppskölun á sama ferlinu.

Finnfjord telst þegar vera ein orkunýtnasta kísilmálverksmiðja í heimi og hafa eigendur hennar sett sér metnaðarfull markmið í að ná kolefnishlutleysi.

Auk rafmetanólverksmiðjunnar hyggur Finnfjord á að setja upp verksmiðju til að rækta um 75000 tonn af þörungum á ári með koltvísýringi. Föngun og hagnýting þeirra 300.000 tonna af koltvísýringi sem kísilmálverksmiðjan myndi ella losa á ári jafngildir því að taka 100.000 hefðbundna bensín- og dísilbíla úr umferð.

Þá verður mikil samlegð í rekstri þessara tveggja ferla, þar sem metanólverksmiðjan og þörungaræktin munu samnýta innviði og hagnýta betur varmaorku sem til fellur í framleiðsluferlunum,“ segir í fréttatilkynningu.

Verkefnin eru jafnframt dæmi um mikilvæg nýsköpun og áfanga við uppbyggingu hringrásarhagkerfisins. Framlag Statkraft er reynsla á sviði orkuframleiðslu og miðlunar, en fyrirtækið hefur markað sér þá stefnu að verða í forystu við uppbyggingu virðisaukandi framleiðslu á vetni og afleiðum í Noregi. 

„Verksmiðjan verður sú fyrsta af fullri stærð og gert er ráð fyrir að framleiðslukostnaður verði hærri en á hefðbundnu jarðefnaeldsneyti þannig að stuðningur þurfi að nema um 50% af fjármögnun verksmiðjunar. Þessi kostnaður endurspeglar einnig þróunarkostnað nýrrar tækni, sem mun síðan lækka með tímanum auk þess sem kostnaður við að losa koltvísýring út í andrúmsloftið fer hækkandi og þannig hvatinn til að fjárfesta í tækni sem kemur í veg fyrir losun. Búist er við að fjárfestingarákvörðun geti legið fyrir í lok árs 2021 og muni þá taka um tvö ár að reisa verksmiðjuna,“ segir ennfremur í tilkynningu.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK