Faraldurinn hraðaði sparnaðaraðgerðum

Marel
Marel mbl.is/Hjörtur

Hagnaður Marels á þriðja ársfjórðungi nam 29,4 milljónum evra, en það samsvarar um 4,9 milljörðum króna. Á sama tíma í fyrra var hagnaður félagsins 33,4 milljónir. Rekstrarhagnaður fyrir skatta var sambærilegur milli ára, en hann var 44,1 milljón evra á þriðja ársfjórðungi í ár samanborgið við 44,3 milljónir evra í fyrra. Var rekstrarhagnaðurinn 15,4% af tekjum sem námu 287,2 milljónum og lækkuðu úr 312,5 milljónum evra á þriðja ársfjórðungi í fyrra. Þetta kemur fram í árshluta uppgjöri félagsins sem birt hefur verið.

Þegar horft er til fyrstu níu mánaða ársins hafa tekjur lækkað úr 963,6 milljónum evra í fyrra í 894,5 milljónir í ár og rekstrarhagnaður fyrir skatta farið úr 141,4 milljónum í 114,5 milljónir. Þá hefur hagnaðurinn dregist saman úr 99,9 milljónum evra í 73,5 milljónir á fyrstu níu mánuðum þessa árs.

Pantanir sambærilegar og í fyrra

Pantanir sem liggja fyrir eru sambærilegar milli ára, en á fyrstu níu mánuðum ársins nema þær 914,4 milljónum á móti 919,5 milljónum í fyrra. Á þriðja ársfjórðungi nema pantanir 282,5 milljónum evra samanborið við 285 milljónir á þriðja ársfjórðungi.

Handbært fé félagsins frá rekstri var í lok þriðja ársfjórðungs 54,1 milljónir evra og hækkaði um rúmlega 6 milljónir evra frá sama tíma í fyrra.

Árni Oddur: Ánægja með afkomuna og bjartsýni

Í tilkynningunni  er haft eftir Árna Oddi Þórðarsyni, forstjóra Marels, að ánægja sé með afkomuna það sem af er ári og bjartsýni ríki um framtíðarhorfur félagsins. Segir hann mikla eftirspurn eftir aukinni sjálfvirkni og sveigjanleika í framleiðslu á matvælum og að breytingar séu örar.

„Á þriðja ársfjórðungi nema tekjurnar 287 milljónum evra með EBIT framlegð upp á 15,4%. Enda þótt tekjur séu lægri en á sama fjórðungi í fyrra skilum við sambærilegu EBIT í fjórðungnum að fjárhæð 44 milljónir evra. Þessi góða afkoma er drifin áfram af sterkri framlegð sem byggist á góðu hlutfalli háframlegðar vara og þjónustu, með vel skipulagðri framleiðslu og afhendingu og almennt lægri rekstarkostnaði,“ er haft eftir Árna.

Minni kostnaður við ferðalög

Segir hann að auknar stafrænar lausnir félagsins sem og sérfræðingar í iðnaðarsetrum félagsins víða um heim sem styðji við sölu- og þjónustufólk hafi leitt til minni ferðalaga og þar með lækkaðs kostnaðar. „Búist var við því að þessi þróun myndi taka mörg ár en faraldurinn hefur nú hraðað henni verulega,“ er haft eftir honum.

Keyptu þýskt félag með 500 starfsmenn

Félagið lauk við kaup á TREIF, þýskum framleiðanda skurðtæknilausna í byrjun október, en tilkynnt hafði verið um viðskiptin í byrjun september. Er félagið með yfir 80 milljónir evra í árstekjur og um 500 starfsmenn. Segir í tilkynningunni að kaupin muni styrkja vöruframboð Marel á heildarlausnum, en stærstu tekjusvið TREIF eru í dag kjötiðnaður og í bökuðum vörum.Var greitt fyrir kaupin með 128 milljónum evra í reiðufé og 2,9 milljónum hluta í Marel.

TREIF er leiðandi fyrirtæki á sínu sviði með alþjóðlegan hóp viðskiptavina. Með því að nýta stafrænar lausnir og alþjóðlegt sölu- og þjónustunet Marel í öllum heimsálfum skapast skilyrði fyrir frekari vexti í sölu til annarra geira matvælaiðnaðar, sókn inn á nýja markaði, sem og vexti í þjónustutekjum.

Langtímaspá áfram óbreytt

Fram kemur að markaðsaðstæður Marel séu krefjandi í ljósi faraldursins, en að fyrirtækið búi að góðri dreifingu tekna á milli markaða og iðnaða. Ekki er enn vitað hver fjárhagsleg áhrif faraldursins verða, en félagið tekur fram að það standi við vaxtarmarkmið sín til meðallangs- og langs tíma upp á 40% framlegð, 18% sölu-, markaðs- og stjórnunarkostnað og 6% þróunarkostnað. Þá sé stefnt að 12% meðalvexti árlega yfir tímabilið 2017-2026. Byggir það á markaðssókn, nýsköpun, samstarfi og yfirtöku á fyrirtækjum.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK