Um 16% tekjuvöxtur hjá Origo á árinu

Jón Björnsson, forstjóri Origo.
Jón Björnsson, forstjóri Origo. Ljósmynd/Aðsend

Tekjuvöxtur upplýsingatæknifyrirtækisins Origo nemur 16% á fyrstu níu mánuðum ársins, en sú niðurstaða er „yfir væntingum, bæði í sölu og afkomu, og sýnir að Origo hefur unnið vel úr sínum aðstæðum á síðasta fjórðungi,“ segir Jón Björnsson, forstjóri Origo, í fréttatilkynningu vegna uppgjörsins.

Hann segir styrkleika fyrirtækisins í að leysa stór og flókin verkefni eiga stóran þátt í þessum góða árangri, auk hagfelldra skilyrða fyrir hluta af starfsemi Origo.

„Umbreyting á starfsemi í notendabúnaði og tengdri þjónustu, aukin eftirspurn eftir rekstrarþjónustu og innviðum hjá Origo og góður rekstur Applicon eru lykilatriði í bættum rekstri,“ segir Jón. Applicon er dótturfélag Origo í Svíþjóð, sem starfar einnig á sviði upplýsingatækni, en fyrirtækið sameinaðist Nýherja og TM Software undir nafninu Origo árið 2018.

Origo sérhæfir sig í þjónustu á sviði upplýsingatækni.
Origo sérhæfir sig í þjónustu á sviði upplýsingatækni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sala Origo á vöru og þjónustu nam næstum því fjórum milljörðum króna á þriðja ársfjórðungi 2020 miðað við tæpa 3,5 milljarða á sama ársfjórðungi í fyrra, en það er 15% tekjuvöxtur á milli ára. Salan nam 12,2 milljörðum á fyrstu níu mánuðum ársins, sem er 15,7% tekjuvöxtur miðað við sama tímabil árið 2019, sem var 10,5 milljarðar.

Heildarhagnaður fyrirtækisins hefur margfaldast síðan í fyrra, en hann nam 90 milljónum króna á þriðja ársfjórðungi, miðað við 15 milljónir yfir sama tímabil árið 2019. Netverslun Origo hefur svo tvöfaldað sölu sína í kórónuveirufaraldrinum.

Þá hafa tekjur allra sviða aukist og afkoma batnað, en framlegðin var einn milljarður króna (25,1%) á þriðja ársfjórðungi miðað við 747 milljónir króna (21,6%) í fyrra.

Origo endurnýjaði einnig tvo stærstu þjónustusamninga sína í kerfisrekstri nýverið, og er eiginfjárhlutfall 58,2% í dag, en það var 57,1% í lok árs 2019.

„Niðurstaðan er einn af betri rekstrarfjórðungum í rekstri Origo, þegar horft er til hagnaðar fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta,“ segir Jón.

Fyrirtækið hefur einnig látið til sín taka á sviði netöryggis. „Origo hefur sérhæft sig undanfarin ár í að aðstoða fyrirtæki í að tryggja sig betur fyrir netárásum og við sjáum töluvert mikla eftirspurn eftir þekkingu okkar og reynslu í þeim málaflokki,“ segir Jón.

Auk þess hefur Origo aðstoðað heilbrigðisstarfsfólk við skimanir á kórónuveirunni á árinu, og hefur það samstarf reynst vel.

„Hugbúnaðarsvið Origo hafa náð að aðlaga starfsemi sína vel að þeim breyttu aðstæðum sem COVID-19 hefur orsakað,“ segir Jón. Flest ferli eru orðin að fullu sjálfvirk, afgreidd án aðkomu starfsmanna heilbrigðisþjónustunnar. Með þessu hefur heilbrigðiþjónustan náð að anna allt að 5 þúsund COVID-19 prófunum á dag.“

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK