Tekjur lækkuðu um 81%

Heildartekjur Icelandair Group lækkuðu á þriðja ársfjórðungi um 81% samanborið við sama tímabil í fyrra en þær námu 14,1 milljarði króna. Áfram er gert ráð fyrir lágmarksstarfsemi flugfélagsins á næstu vikum vegna kórónuveirufaraldursins.

Þetta kemur fram í uppgjöri þriðja ársfjórðungs hjá Icelandair Group sem birt var í Kauphöll nú í kvöld.

Þar segir enn fremur að fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins hafi lokið í síðasta mánuði með vel heppnuðu 23 milljarða króna hlutafjárútboði.

Eigið fé nam 40,7 milljörðum í lok fjórðungsins og eiginfjárhlutfall var 26%. Lausafjárstaða félagsins nam 55 milljörðum króna. 

„Kórónuveirufaraldurinn hélt áfram að hafa áhrif á starfsemi Icelandair Group í þriðja ársfjórðungi. Við náðum að draga úr tekjutapi með því að bregðast hratt við og mæta aukinni eftirspurn eftir flugi þegar ferðatakmarkanir í Evrópu voru rýmkaðar tímabundið í sumar. Um leið héldum við áfram að sækja ný verkefni í leigu- og fraktflugi og jukust tekjur af fraktflutningum um 16% á milli ára. Aftur á móti starfræktum við einungis níu prósent flugáætlunar okkar og fjöldi farþega dróst saman um 90% á milli ára,“ er haft eftir Boga Nils Bogasyni, forstjóra Icelandair Group. Hann gerir áfram ráð fyrir því að starfsemi félagsins verði í lágmarki á næstu vikum.

Við höfum hins vegar náð að takmarka útflæði fjármagns og styrkt lausafjárstöðu félagsins til þess að geta komist í gegnum tímabil lágmarksframleiðslu allt fram á árið 2022 ef þörf krefur. Við leggjum þó áherslu á að vera vel undirbúin til að bregðast hratt við um leið og aðstæður í heiminum batna og ferðatakmarkanir á Íslandi verða rýmkaðar,“ er enn fremur haft eftir Boga. 

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK