Hagur íslenskra útflytjenda betri eftir Brexit

Lambakjöt er á meðal þess sem flutt er út frá …
Lambakjöt er á meðal þess sem flutt er út frá Íslandi. mbl.is/Árni Torfason

Markaðsaðgangur íslenskra útflytjenda búvara batnar við útgöngu Breta úr Evrópusambandinu, segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag. 

Hann segir að það sé rangt að Brexit kippi forsendum undan tollasamningi Íslands og Evrópusambandsins.

Síðastliðinn fimmtudag var samkomulag gert við bresk stjórnvöld um að bráðabirgðafríverslunarsamningur Íslands, Noregs og Bretlands, sem var gerður vorið 2019, muni gilda í viðskiptum ríkjanna ef samningur til framtíðar næst ekki fyrir áramót.

Samningurinn kveður á um að Ísland og Bretland veiti hvort öðru gagnkvæma innflutningskvóta.

„Þannig fær Ísland tollfrjálsan kvóta fyrir rúmlega þúsund tonn af búvörum inn á brezkan markað; 692 tonn af lambakjöti og 329 tonn af skyri. Á móti fær Bretland tollkvóta hér á landi fyrir 30 tonn af osti og 18 tonn af unnum kjötvörum. Þessar innflutningsheimildir eru byggðar á viðskiptum ríkjanna undanfarin ár. Ganga má út frá því að í framtíðarsamningi við Bretland verði ekki samið um síðri markaðsaðgang. Þannig halda íslenzkir framleiðendur búvara í það minnsta þeim aðgangi að brezka markaðnum sem þeir hafa haft undanfarin ár og hafa auk þess allan innflutningskvótann á ESB-markað óskertan. Markaðsaðgangur íslenzkra útflytjenda búvara batnar með öðrum orðum við útgöngu Bretlands úr ESB, en ekki öfugt,“ segir í grein Ólafs.

Sigurður Ingi vilji „að klukkunni verði snúið til baka“

Hann segir að Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, og Arnar Árnason, formaður Landssambands kúabænda, hafi hvatt til þess að tollasamningi Íslands og ESB frá árinu 2015 verði sagt upp eða hann endurskoðaður. 

„[Þeir] virðast vilja að klukkunni verði snúið til baka og dregið á ný úr fríverzlun með búvörur á milli Íslands og ESB. Slíkt myndi hins vegar ekki samrýmast samningnum um Evrópska efnahagssvæðið,“ skrifar Ólafur. 

Hann telur að afturhvarf til þess ástands sem ríkti fyrir gerð samningsins myndi greiða veitingahúsageiranum þungt högg enda hafi hér á landi reynst góður markaður fyrir ýmsar gæðaafurðir frá ESB. 

Samningurinn hefur auðveldað innflutningsfyrirtækjum að útvega bæði verzlunum og veitingahúsum ýmsar vörur sem mikil eftirspurn er eftir en einfaldlega ekki til í nægu magni frá innlendum framleiðendum, t.d. villibráð og nautakjöt í efstu gæðaflokkum,“ skrifar Ólafur sem telur að landbúnaðurinn hafi misst af þeim tækifærum sem felast í samningnum.

Ættum við að segja upp samningi sem hefur eflt almannahag af því að landbúnaðurinn hefur misst af tækifærunum sem í honum felast?“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK