190 milljarðar í greiðsluhléi

Lausafjárstaða stóru bankanna þriggja er sterk. Hinn 16. september áttu bankarnir lausar eignir umfram lágmarks lausafjárkröfur sem námu tæplega 255 milljörðum króna. Þetta er meðal þess sem kemur fram í fundargerð fjármálastöðugleikanefndar Seðlabanka Íslands í september. Staðan hafði lækkað um 15 milljarða frá fundi nefndarinnar í júní.

„Álagspróf á lausafjárstöðu bankanna benda til að þeir þoli mikið útflæði. Álag á erlendar skuldabréfaútgáfur bankanna hafði lækkað verulega milli funda. Er þetta í samræmi við alþjóðlega þróun. Álagið er nú heldur hærra en fyrir farsóttina.

Rúm lausafjárstaða í erlendum gjaldeyri hefur veitt bönkunum svigrúm til að takast á við krefjandi markaðsaðstæður erlendis án þess að þeir hafi þurft að ráðast í skuldabréfaútgáfur.

Vaxtaálag á sértryggðum bréfum bankanna umfram ríkisbréf hafði einnig lækkað áfram á milli funda og var svipað og fyrir útbreiðslu farsóttarinnar,“ segir í fundargerðinni sem var birt á vef Seðlabanka Íslands í gær.

Eiginfjárstaða bankanna sterk

Tap stóru bankanna þriggja á fyrri helmingi ársins nam 700 milljónum króna. Uppgjör bankanna voru lituð af aukinni virðisrýrnun og nam hún rúmlega 23 ma.kr. á árshelmingnum. „Viðbúið er að til frekari virðisrýrnunar komi á næstu ársfjórðungum dragist farsóttin á langinn.

Þrátt fyrir þetta er eiginfjárstaða bankanna mjög sterk og var eiginfjárhlutfall þeirra að meðaltali 24,8% í lok júní sl. samanborið við 22,4% í lok desember 2019.

Sterk eiginfjárstaða og aflétting sveiflujöfnunaraukans veitir bönkunum svigrúm til að takast á við aukið útlánatap og halda þrótti til nýrra útlána á sama tíma.

Um miðjan september sl. voru um 190 ma.kr. af útlánum stóru bankanna þriggja í greiðsluhléi vegna farsóttarinnar. Það voru rúmlega 6% af útlánum bankanna til viðskiptavina en hlutfallið hafði lækkað hratt vikurnar á undan, þar sem 6 mánaða greiðslufrestur var í mörgum tilvikum á enda runninn.

Greiðsluhlé voru algengari hjá fyrirtækjum eða tæplega 9% samanborið við rúmlega 3% af útlánum til heimila. Nær fjórðungur útlána til ferðaþjónustufyrirtækja var í greiðsluhléi, um 12% af lánum til þjónustu og um 10% lána til verslunar. Hlutfallið var lægra í öðrum atvinnugreinum. Vanskil höfðu aukist. Frá áramótum til loka júlí hafði hlutfall útlána bankanna til heimila í vanskilum hækkað úr 2,1% í 2,7% og hjá fyrirtækjum úr 4,8% í 8,9%,“ að því er segir í fundargerð nefndarinnar. 

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK