Eiga einfaldlega ekki fyrir launum

„Starfseminni var í raun sjálfhætt vegna þess að sóttvarnaaðgerðir koma í veg fyrir að hægt sé að hafa opið,“ segir Ingibjörg Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Hótel Sögu. Vísar hún þar til lokunar hótelsins nú um mánaðarmótin, en líkt og greint var frá í gær voru stjórnendur hótelsins nauðbeygðir til að loka hótelinu. 

Aðspurð segir Ingibjörg að lokunin sé ekki endilega endanleg en þó sé ólíklegt að hótelið verði opnað í bráð. „Það er ekkert endanlegt í þessu, Hótel Saga er áfram til staðar. Við fengum framlengingu á greiðsluskjóli og erum að vinna í fjárhagslegri endurskipulagningu. Það bendir ekkert til þess að hingað komi mikill fjöldi erlendra ferðamenn þannig að það eru því miður litlar líkur á að hér verði opnað í nánustu framtíð.“

Öllum sagt upp í apríl

Öllu starfsfólki hótelsins var sagt upp í apríl og því þarf engum að segja upp þegar hótelinu verður lokað nú um mánaðarmótin. „Við réðum lítinn hóp til okkar mánuð til mánaðar. Við þurfum því ekki að fara í neinar uppsagnir heldur hættir fólk bara um mánaðarmótin,“ segir Ingbjörg og bætir við að ekki hafi reynst áhugi meðal stúdenta um langtímaleigu herbergja á hótelinu. 

Eins og áður hefur komið fram er hótelið í eigu Bændasamtakanna. Eigninni verður því haldið við þrátt fyrir að enginn rekstur sé í húsinu. „Auðvitað munum við halda hótelinu við. Við reynum að hafa það í eins góðu lagi og við getum. En þegar það er of dýrt að hafa opið og maður á ekki fyrir launum er sjálfhætt.“

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK