Olíuverð hrynur og markaðir í Evrópu titra

Hlutabréfamarkaðir í Evrópu leika á reiðiskjálfi vegna nýrra og hertra …
Hlutabréfamarkaðir í Evrópu leika á reiðiskjálfi vegna nýrra og hertra samkomutakmarkana víða í álfunni. Heimsmarkaðsverð á olíu fer einnig lækkandi vegna sömu ástæðu. Bjartara er þó yfir hlutabréfamörkuðum í Bandaríkjunum. AFP

Vegna kórónuveirufaraldursins hefur spurn eftir hráolíu minnkað á nýjan leik. Olíumarkaðir höfðu rétt úr sér eftir að kreppti að fyrst þegar veiran lét á sér kræla, en nú er útlitið aftur orðið dökkt. Þetta skilar sér þó til neytenda í lægra eldsneytisverði.

„Nýtilkomin útgöngubönn hafa frá því í gær valdið miklum ófögnuði á olíumörkuðum,“ er haft eftir Bornar Tonhaugen, forstöðumanni olíumarkaðssviðs hjá norska greiningarfyrirtækinu Rystad Energy.

„Það mun verða algjör forsendubrestur hvað spurn eftir olíu varðar í kjölfar allra þessara útgöngubanna,“ bætir hann við. „Heimsmarkaðsverð mun nú lækka í takt við þessar dökku horfur.“

Bjartara yfir hlutabréfamörkuðum vestra

Á sama tíma og heimsmarkaðverð á hráolíu veldur miklum kvíða meðal olíuframleiðsluríkja kveður við bjartari tón á Wall Street. Getgátur voru um tiltrú fjárfesta á mörkuðum vestra eftir að opinberar mælingar sýndu fram á methagvöxt á þriðja ársfjórðungi eða 33,1% á ársgrundvelli.

Í Evrópu hefur staðan þó versnað undanfarna daga í ljósi þess að bæði frönsk og þýsk stjórnvöld tilkynntu að koma myndi til útgöngubanns á næstu dögum. Í báðum löndum hefur greinst metfjöldi kórónuveirusmita undanfarna daga. Gengi evrunnar féll þrátt fyrir tilraunir Seðlabanka Evrópu til þess að halda genginu stöðugu.

„Þessi síðari bylgja faraldursins sem nú herjar á Evrópu gerir það að verkum að þungavigtarríki innan álfunnar, á borð við Frakkland og Þýskaland, verða að herða sóttvarnaaðgerðir sínar,“ hefur AFP eftir Agöthu Demarais, sérfræðingi alþjóðaspár hjá The Economist.

„Það er sífellt meiri hætta á að kreppa með tvöfaldri dýfu skeki hagkerfi heimsins,“ bætir hún við. Agatha vísar til þess sem á ensku heitir „double-dip recession,“ þ.e. að það verði kreppa sem ljúki síðan með hagvaxtarskeiði en síðan fylgi önnur kreppa í kjölfarið.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK