TM hagnast um tæpan milljarð

Sigurður Viðarsson er forstjóri TM.
Sigurður Viðarsson er forstjóri TM. mbl.is/Hari

Tryggingafélagið TM hagnaðist um 979 milljónir á þriðja ársfjórðungi og sneri þar með tapi í hagnað miðað við sama fjórðung fyrra árs. Þá tapaði félagið 184 milljónum króna.

Rekstrarhagnaður á fjórðungnum reyndist 1.121 milljón króna. Afkoma vátryggingastarfsemi var jákvæð um 497 milljónir (354 milljónir 3F 2019), afkoma fjármögnunar var jákvæð um 143 milljónir (111 milljónir 3F 2019) og fjárfestingastarfsemi skilaði 481 milljón króna (-640 milljónir 3F 2019).

Arðsemi eigin fjár litið 12 mánuði aftur í tímann er 20,8% og hagnaður áhlut 1,27 kr. Samsett hlutfall er 89,2% en var 93,6% á sama fjórðungi í fyrra.

Í fréttatilkynningu frá félaginu er haft eftir Sigurði Viðarssyni, forstjóra þess að afkoman á fjórðungnum hafi þróast mjög til hins betra frá fyrra ári.

„Sérstaklega ánægjulegt er að sjá meira jafnvægi milli þriggja stoða starfseminnar, vátrygginga, fjármögnunar og fjárfestinga.“

Segir Sigurður að viðræður um sameiningu við Kviku gangi vel en í lok septembermánaðar var tilkynnt um að þær stæðu yfir.

„Viðræðurnar hafa gengið vel og stefnt er að því að niðurstaða liggi fyrir á næstu vikum. Gangi áform um sameiningu eftir verður sameinað félag fjárhagslega sterkt og með alla burði til að sækja fram á öllum helstu sviðum fjármála- og tryggingaþjónustu.“

Hagnaður á fyrstu níu mánuðum ársins

Hagnaður TM á fyrstu 9 mánuðum ársins er 3.246 milljónir króna og tvöfaldast miðað við fyrra ár þegar hann var 1.840 milljónir.

Rekstrarhagnaður nam 1.256 milljónum en var  1.976 milljónir fyrir ári síðan. Miðast þessar tölur við að Lykill hefði verið hluti af samstæðunni en fyrirtækin sameinuðust eftir að TM keypti Lykil í janúar síðastliðnum.

Afkoma trygginga á fyrstu níu mánuðum ársins er 907 milljónir (871 milljón 9M 2019), afkoma fjármögnunar er neikvæð um 211 milljónir (366 milljónir 9M 2019) og afkoma fjárfestinga er jákvæð um 2.813 milljónir (739 milljónir 9M 2019).

Arðsemi eigin fjár það sem af er ári er 23,4%. Hagnaður á hlut er 4,21 króna og samsett hlutfall er 94%.

Gera ráð fyrir 3 milljarða hagnaði

Gert er ráð fyrir að hagnaður TM á næstu 12 mánuðum muni vera um 3 milljarðar króna fyrir skatta og að samsett hlutfall vátrygginga verði um 93%.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK