Ferðaþjónustufyrirtæki fengið 52% allra stuðningslána

Ferðamaður með grímu í miðborg Reykjavíkur fyrr á þessu ári.
Ferðamaður með grímu í miðborg Reykjavíkur fyrr á þessu ári. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stuðningslán hafa einkum verið veitt til fyrirtækja í ferðaþjónustu og hafa þau fengið 52% allra stuðningslána. Þetta er meðal upplýsinga sem fram koma í samantekt Seðlabanka Íslands til fjármála- og efnahagsráðuneytisins um nýtingu úrræðisins.

Stuðningslán eru hluti af efnahagsaðgerðum stjórnvalda gegn neikvæðum efnahagsáhrifum Covid-19, að því er segir í tilkynningu á vef fjármálaráðuneytisins.

„Stuðningslán eru rekstrarlán með ríkisábyrgð sem veitt eru til þeirra fyrirtækja sem orðið hafa fyrir mestu tekjufalli. Markmið stuðningslána er að vinna gegn tímabundnum lausafjárvanda smærri fyrirtækja sem leitt gæti til enn frekari efnahagssamdráttar. Stuðningslán með fullri ríkisábyrgð nema að hámarki 10 milljónum en lán með 85% ríkisábyrgð geta numið allt að 40 milljónum á fyrirtæki,“ segir í tilkynningunni. 

Meðalfjárhæð lána um 8 milljónir

Þar kemur einnig fram, að í lok september hafi verið veitt 654 stuðningslán til fyrirtækja, 592 með fullri ríkisábyrgð og 62 með ríkisábyrgð á 85% lánsfjárhæðarinnar og nemi heildarábyrgð ríkissjóðs rúmlega fimm milljörðum kr. að því er fram komi í samantekt Seðlabankans. Langstærstur hluti lánanna hafi farið til lítilla fyrirtækja, þ.e. fyrirtækja með starfsmannafjölda á bilinu 1-10. Meðalfjárhæð lána hefur verið um 8 milljónir kr. 

27% lána farið til fyrirtækja í þjónustu eins og veitingarekstri

Auk ferðaþjónustu, sem mest hefur nýtt úrræðið, hafa 27% af stuðningslána farið til fyrirtækja í þjónustu eins og veitingarekstri. Þessar tvær atvinnugreinar hafa enda orðið fyrir hvað mestum áhrifum vegna heimsfaraldurs Covid-19.

Stuðningslán eru ekki stórt hlutfall af heildarskuldsetningu fyrirtækja í ferðaþjónustu sem bendir til þess að fyrirtæki í greininni hafi verið skuldsett fyrir áhrif Covid-19.
Af 654 lánum sem veitt höfðu verið í lok september fór 38% til fyrirtækja utan höfuðborgarsvæðisins.

Nánar hér. 

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK