Jólin gætu skilið á milli feigs og ófeigs

Birgir Örn Birgisson, forstjóri Domino's á Íslandi.
Birgir Örn Birgisson, forstjóri Domino's á Íslandi. mbl.is/Valli

Birgir Örn Birgisson, forstjóri Domino´s á Íslandi, segir að það hafi komið sér mest á óvart í nýlegri Skýrslu KPMG um launakostnað í veitingageiranum hversu veitingageirinn var á erfiðum stað áður en kórónuveirufaraldurinn hófst. „Hann var komin í mjög þrönga stöðu en það er augljóst að Covid-19 er búið að fara með greinina á mun verri stað,“ segir Birgir Örn en miðað við skýrsluna lítur út fyrir að staðan verði enn verri eftir tvö ár þegar lífskjarasamningurinn hefur runnið sitt skeið.

Hann segir að það hafi einnig verið athyglisvert í skýrslunni að hér á landi séu langhæstu launin í veitingageiranum miðað við á hinum Norðurlöndunum. „Það sýnir hvað það er skringilega gefið í þessu öllu saman.“

Launahækkunum ekki velt út í verðlag

Ráðgjafasvið KPMG vann skýrsluna fyrir Samtök fyrirtækja á veitingamarkaði. Greindur var launakostnaður í veitingageiranum til að varpa ljósi á launa- og afkomuþróun í geiranum frá árinu 2014 og draga saman sérstöðu veitingarekstrar.

Þar kemur fram að veitingageirinn á Íslandi hefur ekki náð að velta launahækkunum út í verðlag og því má áætla að launahækkanir næstu ára sem voru samþykktar í lífskjarasamningnum muni lækka enn frekar arðsemi af veitingarekstri.

Einnig segir í skýrslunni að eins og samningar eru núna þá eru þeir starfsmenn í hlutastarfi sem vinna eingöngu seinnipartinn, á kvöldin og um helgar með mun hærri tímalaun en starfsmenn sem vinna í fullu starfi. Þetta veldur því að laun sem hlutfall af tekjum í veitingarekstri eru orðin mjög há miðað við flestar aðrar atvinnugreinar og eins í samanburði við félög í veitingarekstri í öðrum löndum. Stór hluti íslenskra starfsmanna í veitingarekstri er í hlutastarfi, til að mynda skólafólk.

Launahlutfall getur farið í 51,7%

Laun fyrir hverja unna klukkustund í gisti- og veitingarekstri hafa til að mynda hækkað um 40% frá ársbyrjun 2014 á meðan laun á hverja unna klukkustund í sömu atvinnugrein í öðrum Norðurlöndum hafa hækkað innan við 15%

Ef ekki er hægt að gera breytingar á verðlagi þá hækkar launakostnaðarhlutfall í samræmi við launahækkanir 2020-2022, að því er kemur fram í sviðsmynd KPMG.  Launahlutfall fer úr 41,2% árið 2019 í áætlað 51,7% launahlutfall 2022.  Ef hægt er að koma helmingi af launahækkunum út í verðlagið hækkar launakostnaðarhlutfall sem nemur helmingi af launahækkunum 2020-2022, samkvæmt annarri sviðsmynd KPMG. Launahlutfall fer úr 41,2% árið 2019 í áætlað 46,2% launahlutfall 2022.

Ráðherrarnir Sigurður Ingi Jóhannsson, Katrín Jakobsdóttir og Bjarni Benediktsson á …
Ráðherrarnir Sigurður Ingi Jóhannsson, Katrín Jakobsdóttir og Bjarni Benediktsson á blaðamannafundi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fá úrræði til staðar

Spurður út í aðstoð stjórnvalda til fyrirtækja í veitingarekstri vegna Covid-19 segir Birgir Örn að til að byrja með hafi hlutabótaleiðin nýst sumum en eftir það hafi fá eða engin úrræði verið til staðar. Eftir að byrjað var að miða við 70% starfshlutfall hafi hlutirnir breyst fyrir marga. „Núna erum við að bíða eftir því að stjórnvöld komi hressilega til móts við greinina svo að það fari ekki illa, sérstaklega hjá fyrirtækjum í veitingarekstri í miðbænum,“ greinir hann frá.

Vantaði rödd

Varðandi tilurð Samtaka fyrirtækja á veitingamarkaði segir hann að stærstu aðilarnir í geiranum séu þar inni. „Það má segja að við höfum verið án heimilis í dálítinn tíma,“ segir Birgir Örn. „Fyrirtæki í veitingarekstri voru upprunalega hugsuð inn í SAF [Samtökum ferðaþjónustunnar] en raunin hefur verið sú að langflest fyrirtæki í veitingageiranum hafa ekki verið innan neinna samtaka,“ bendir hann á. Þess vegna hafi þessi vinna farið af stað því rödd þeirra hafi vantað. „Við vonumst til að fá þennan stóra og breiða hóp með okkur enda hefur greinin sjaldan verið eins samstíga og núna.“

Alls eru 600 til 800 fyrirtæki í veitingageiranum sem velta 80 til 100 milljörðum og eru með nærri 12 þúsund starfsmenn, að sögn Birgis Arnar. 

Þarf að endurskoða strúktúrinn

Hann segir veitingastaði hafa komið mjög illa út úr síðustu kjarasamningum. „Við höfum góðan skilning á því að það þurfi að hækka lægstu launin en að sama skapi er það augljóst af lestri skýrslunnar að það var gengið of langt hvað varðar getu greinarinnar til að borga þau laun,“ bætir hann við og segir stöðuna varla hafa verið sjálfbæra í lok síðasta árs og allt stefni í að hún verði ekki sjálfbær í lok ársins 2022.  Endurskoða þurfi strúktúrinn á því hvernig launin eru uppbyggð þar sem eftirvinnan er eins mikil og raun ber vitni og hversu snemma hún hefst í samanburði við hin Norðurlöndin.

Birgir Örn segir að ein af hugmyndum Samtaka fyrirtækja á veitingamarkaði vera að stjórnvöld lækki virðisaukaskatt á veitingageirann úr 11% niður í 7% eins og hann var áður. „Það er súrefni sem gæti komið fólki í gegnum versta skaflinn,“ segir hann.  Það hvernig jólin koma til með að ganga eigi víða eftir að skilja á milli feigs og ófeigs um framhaldið, sérstaklega fyrir veitingastaði niðri í bæ.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK