Tillögurnar snerta fjölmörg störf og atvinnugreinar

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og ný­sköp­un­ar­ráðherra, á kynningarfundi …
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og ný­sköp­un­ar­ráðherra, á kynningarfundi um samkeppnismat OECD í ferðaþjónustu og byggingariðnaði. mbl.is/Kristinn Magnússon

Meðal þess sem Efnahags- og framfarastofnunin OECD leggur til í samkeppnismati sínu á regluverki sem gildir um byggingarstarfsemi á Íslandi er að endurskoða í heild ferli skipulagsákvarðana sveitarfélaga og ferli og reglur um úthlutun lóða. Þá ætti að einfalda ferli við veitingu byggingarleyfa og setja skýra tímafresti og draga úr kvöðum vegna minni háttar framkvæmda. Einnig segir þar að kröfur um algilda hönnun sem tryggi aðgengi allra séu takmarkandi og veiti takmarkað svigrúm til nýskapandi lausna.

Kerfi meistararéttinda og löggildingar endurskoðað

Í tillögunum er einnig lagt til að kerfi meistararéttinda og löggildingar verði endurskoðað og eru sérstaklega nefnd dæmi um að taka þurfi til skoðunar reglubyrði fyrir fyrir smiði, rafvirkja, pípara, byggingarstjóra, löggilta hönnuði, fasteignasala, arkitekta og verkfræðinga. Þá er sérstaklega lagt til að afnema löggildingu bakara og ljósmyndara.

Metur OECD það svo að þær tillögur sem lagðar eru fram og tengjast byggingariðnaði geti skapað 148 milljóna evra ábata á ári, eða um 25 milljarða.

Afnám á hömlum um gistiþjónustu á ákveðnum svæðum

Þegar kemur að ferðaþjónustunni er lagt til að afnema tvöfalda leyfisskyldu ferðaþjónustuleyfa og leyfa vegna sérútbúinna bifreiða fyrir farþegaflutninga í atvinnuskyni. Einnig að afnema nákvæm forskriftarákvæði í stöðum um gististaði og afnema hömlur sveitarfélaga þegar kemur að breytingum á nýtingu íbúðarhúsnæðis, en hér er aðallega horft til þess þegar breyta á íbúðarhúsnæði í gistiþjónustu. Hafa slíkar takmarkanir meðal annars verið nýttar í miðbæ Reykjavíkur.

Þegar horft er til flugþjónustu leggur OECD meðal annars til að dregið sé úr kostnaði Keflavíkurflugvallar sem sé langt umfram kostnað annarra flugvalla. Það megi til dæmis gera með að breyta rekstrar- og eignarhaldi flugvallarins. Þá eru lagðar til breytingar á reglum til að draga úr kostnaði langferðabifreiða við flugvöllinn.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra og Ásmundur Daði Einarsson, fjölskyldu- og …
Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra og Ásmundur Daði Einarsson, fjölskyldu- og barnamálaráðherra, á kynningarfundi um samkeppnismat OECD í ferðaþjónustu og byggingariðnaði. mbl.is/Kristinn Magnússon

Leggja til endurskoðun á kerfi leigubílaaksturs

Leggur OECD svo til að hluti af námskröfum leigubílstjóra verði afnuminn, að fyrirtækjum verði gert kleift að fá úthlutuð leigubílaleyfi og að tryggja að gildandi löggjöf hindri ekki nýsköpun á markaðinum, en í kynningu var meðal annars nefnt að opna þyrfti á leigubílaþjónustu sem væri starfrækt í gegnum netið.

Er heildarábatinn af breytingum á reglum sem tengjast ferðaþjónustu metinn á 51,8 milljónir evra á ári, eða sem nemur 8,7 milljörðum króna.

Hægt er að sjá samantekt á helstu tillögum stofnunarinnar hér að neðan, en einnig má nálgast heildarskýrsluna hér:

Byggingariðnaður

Byggingarstarfsemi er mikilvæg atvinnugrein í íslensku efnahagslífi. Hlutur byggingariðnaðar í vergri landsframleiðslu er um 9% og byggingariðnaður veitti um 8% vinnuaflsins hér á landi atvinnu á árinu 2017. Í skýrslu OECD eru gerðar 316 tillögur til úrbóta á regluverki í byggingariðnaði. Um byggingariðnað gildir

Skipulagsmál og landnotkun

Skipulagsreglur og skipulagsáætlanir sveitarfélaga fela í sér reglur og takmarkanir á landnotkun fyrir byggingarstarfsemi. Ferlið við að sækja um breytingar á skipulagsáætlun svo byggingaráform séu í samræmi við gildandi skipulag er óskýrt, tímafrekt og þungt í framkvæmd. Ýmsar opinberar kröfur sem gerðar eru til nýbygginga, svo sem gatnagerðargjald og kröfur um fjölda bílastæða, auka verulega byggingarkostnað. Þá er regluverk um úthlutun lóða óljóst og felur í sér óþarfa hömlur.

Helstu tillögur:

  1. Endurskoða í heild ferli skipulagsákvarðana sveitarfélaga með það að markmiði að einfalda og skýra verklagið.
  2. Taka til skoðunar að lækka gatnagerðargjöld og draga úr kröfum um fjölda bílastæða í Reykjavík vegna áhrifa á byggingarkostnað, eða móta aðrar minna íþyngjandi leiðir til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt.
  3. Endurskoða ferli og reglur sem gilda um úthlutun lóða til að skýra ferlið og auka framboð lóða í samræmi við eftirspurn. Reglur um lóðaúthlutun ættu ekki að hygla þeim fyrirtækjum sem fyrir eru á markaði. Þær ættu heldur ekki að vera óþarflega hamlandi, til dæmis hvað varðar möguleika á að skila lóðum.

Mannvirkjalög og byggingarreglugerð

Í skýrslunni kemur fram að flókið og tímafrekt ferli við öflun byggingarleyfa sé til þess fallið að hækka byggingarkostnað óþarflega mikið. Þá gerir núgildandi regluverk ekki greinarmun á eðli framkvæmda þannig að sömu skilyrði gilda um öflun byggingaleyfa fyrir allar tegundir mannvirkja. Þá er tilkynningarskylda um minniháttar framkvæmdir sem ekki eru háðar byggingaleyfi íþyngjandi. Að lokum eru núgildandi ákvæði er varða kröfur um algilda hönnun, takmarkandi. Tilgangur ákvæðanna er að tryggja aðgengi allra og lágmarksútbúnað, en útfærsla þeirra er með þeim hætti að þau veita takmarkað svigrúm til nýskapandi lausna

Helstu tillögur

  1. Einfalda ætti ferlið við veitingu byggingarleyfa með því að setja skýra tímafresti og skilyrði. Umsóknarferlið ætti að vera að fullu rafrænt. Skilyrði fyrir veitingu byggingarleyfa ættu að byggja á áhættumati á tegund bygginga. Að öðrum kosti ættu smærri og einfaldari verkefni að geta fengið flýtimeðferð.
  2. Tilkynningarskyldu um minni háttar framkvæmdir sem ekki eru háðar byggingarleyfi ætti að afnema eða einfalda verulega með því að heimila rafræna tilkynningu og sjálfkrafa samþykkt eftir tiltekinn tíma. Skilyrði um aðkomu tiltekinna starfsgreina að framkvæmdum ætti að endurskoða og ætti að miða við tegund framkvæmda.
  3. Endurskoða má ákvæði sem kveða á um skilyrði um lágmarksgæði og aðgengi fyrir alla, í því skyni að auka vægi markmiðsmiðaðra ákvæða í stað forskriftarákvæða sem takmarka það hvernig tilteknum markmiðum megi ná.

Byggingarvörur

Um byggingarvörur gilda lög um byggingarvörur og reglugerðir settar á grundvelli þeirra. Í skýrslunni kemur fram að innleiðing reglugerðar ESB um byggingarvörur með lögum um byggingarvörur hafi verið með víðtækari hætti en nauðsynlegt er. Lögin eru því meira íþyngjandi en skuldbindingar Íslands samkvæmt EES-samningnum kveði á um. Niðurgreiðslur á flutningskostnaði vegna byggingarframkvæmda eru til þess fallnar að draga úr samkeppni. Þá er kveðið á um ýmsar skráningar, skoðanir og leyfi fyrir margvíslegum búnaði til mannvirkjagerðar og ekki virðist í öllum tilvikum ástæða til svo umfangsmikils eftirlits m.t.t. hættueiginleika hverju sinni.

Helstu tillögur

  1. Breyta lögum um byggingarvörur til að tryggja samræmi við EES-reglur og meta hvort veita eigi undanþágur fyrir vörur sem hafa ekki hættueiginleika.
  2. Endurskoða hvort þörf sé á svæðisbundinni jöfnun flutningskostnaðar fyrir framleiðendur eða hvort hægt sé að ná sömu markmiðum án þess að mismuna sumum framleiðendum.
  3. Leyfi sem eru nauðsynleg fyrir efni og tækjum tengdum byggingarframkvæmdum ættu að vera útgefin á sama stað (one-stop shop). Skoða ætti hvort veita megi undanþágur frá leyfisskyldu fyrir tæki sem hafa ekki hættueiginleika.
  4. Tiltekin ákvæði, líkt og fjallað er um í skýrslunni, ætti að endurskoða eða fella brott vegna breytinga í greininni eða vegna þess að þau eru úrelt.

Löggiltar starfsgreinar

Lögverndaðar starfsgreinar eru algengur hluti atvinnulífsins, allt frá læknum til leigubílstjóra. Lögverndun tiltekinna starfsgreina eða starfa getur átt rétt á sér í þeim tilfellum þegar neytendur skortir upplýsingar eða forsendur til að geta tekið upplýstar ákvarðanir um kaup á þjónustu. Hins vegar getur of yfirgripsmikil lögverndun haft í för með sér hærra verð til neytenda, lægri framleiðni og færri störf. Við framkvæmd samkeppnismatsins var ákveðið að taka nokkrar tilteknar lögverndaðar starfsgreinar til sérstakrar rannsóknar. Niðurstaða þeirrar rannsóknar er að fjöldi lögverndaðra starfsgreina og starfa er umtalsvert meiri hér á landi miðað við önnur Evrópulönd og önnur lönd innan OECD. Miklar aðgangshindranir eru til staðar á mörkuðum fyrir hvers kyns starfsemi sem krefst aðkomu fjölda löggiltra fagaðila.

Helstu tillögur

  1. Endurskoða í heild sinni löggjöf um löggiltar starfsgreinar, sérstaklega lög um handiðnað, nr. 42/1978, í þeim tilgangi að meta hver séu undirliggjandi markmið löggildingar og hvort þær takmarkanir á atvinnufrelsi sem felast í löggildingu séu málefnalegar í ljósi markmiðanna. Í sumum tilfellum kunna markmiðin að vera óljós eða úrelt. Í þeim tilvikum kann markmiðum löggildingar frekar að vera náð með markvissri neytendavernd eða kröfum um gæði vinnu. Einkarétt til tiltekinna starfa ætti að afnema eða þrengja.
  2. Endurskoða kerfi meistararéttinda. Tilgangur endurskoðunar ætti að vera að mat á tilteknum meistararéttindum út frá kröfum um hæfi og hættueiginleika og einkarétt til tiltekinna verkefna ætti að rökstyðja út frá hættueiginleikum eða ábyrgðarkröfum. Þrjár mismunandi leiðir koma til greina eftir eðli viðkomandi iðngreina: Taka til skoðunar að draga úr reglubyrði fyrir smiði, rafvirkja, pípara, byggingarstjóra, löggilta hönnuði, fasteignasala, arkitekta og verkfræðinga. Afnema löggildingu bakara og ljósmyndara.
    1. Leið A – gera það auðveldara fyrir iðnaðarmenn að afla sér meistararéttinda.
    2. Leið B – leyfa iðnaðarmönnum með sveinspróf að vinna verkefni sem meistarar hafa einkarétt á samkvæmt núgildandi regluverki.
    3. Leið C – afnema í heild sinni löggildingu fyrir tiltekna iðngrein sem er til skoðunar

Ferðaþjónusta

Umfang ferðaþjónustu hefur aukist gríðarlega á Íslandi á undanförnum áratug. Fjöldi ferðamanna hefur vaxið úr því að vera 459 þúsund árið 2010 til þess að vera 2,3 milljónir þegar mest var árið 2018. Ferðaþjónusta er orðin ein af grunnstoðum atvinnulífsins og nam um 9% af landsframleiðslu árið 2017 og veitti þá um 15% af vinnuafli hér á landi atvinnu.

Í skýrslunni voru teknar til skoðunar 229 mögulegar samkeppnishindranir í regluverkinu og gerð 121 afmörkuð tillaga til breytinga.

Ferðatengd þjónusta

Í skýrslunni kemur fram að óþarfa reglubyrði einkenni nokkuð regluverk ferðatengdrar þjónustu. Fyrirkomulag leyfismála er flókið og í nokkrum tilfellum er nauðsynlegt að vera með mörg leyfi fyrir tiltekna starfsemi. Jafnframt eru takmörk á erlendri fjárfestingu í ferðaþjónustu tengdri sjóstangveiðum. Grundvöllur er fyrir endurskoðun á fyrirkomulagi leyfa fyrir atvinnustarfsemi í þjóðgörðum þannig að regluverkið örvi betur samkeppni. Að lokum má benda á að skilyrði um fasta starfsstöð og starfsábyrgðartryggingar bílaleiga fela í sér óþarfa reglubyrði.

Helstu tillögur

  1. Afnema tvöfalda leyfisskyldu ferðaþjónustuleyfa og leyfa vegna sérútbúinna bifreiða fyrir farþegaflutninga í atvinnuskyni.
  2. Meta hvort ríkisfangsskilyrði sé nauðsynlegt til að starfrækja sjóstangveiði í tengslum við ferðaþjónustu.
  3. Afnema úrelt og of nákvæm forskriftarákvæði í stöðlum um gististaði.
  4. Afnema hömlur sveitarfélaga á breytingum á nýtingu íbúðarhúsnæðis í gistihúsnæði. Meta hvort aðrar leiðir sem eru síður samkeppnishamlandi séu færar.
  5. Setja rammalöggjöf um atvinnustarfsemi á náttúruverndarsvæðum til að tryggja að fyrirtæki séu valin á grundvelli gagnsæs útboðsferlis.
  6. Afnema kröfur um fasta starfsstöð og starfsábyrgðartryggingar bílaleiga.

Flugþjónusta

Keflavíkurflugvöllur er einn óhagkvæmasti og dýrasti flugvöllur í Evrópu, jafnvel í samanburði við flugvelli af sömu stærð sem taka á móti svipuðum fjölda farþega og starfræktir eru við sambærilegar veðurfarsaðstæður. Rekstur allra flugvalla á Íslandi er í höndum Isavia, sem er opinbert hlutafélag í eigu ríkisins. Er rekstur félagsins sá óhagkvæmasti í samanburði við rekstur allra annarra flugrekstraraðila í Evrópu. Líkur eru á að núgildandi regluverk og fyrirkomulag eignarhalds flugvalla á Íslandi kunni að stuðla að þessari niðurstöðu. Þannig setur það Isavia engar skorður varðandi verðlagningu á flugvallarþjónustu á Íslandi, sem á endanum kemur niður á neytendum.

Helstu tillögur

  1. Kanna leiðir til að auka hvata Isavia á Keflavíkurflugvelli til að draga úr kostnaði og auka samkeppnishæfni. Mögulegar leiðir gætu t.d. verið breytt skipan eignarhalds eða reksturs með útboði á rekstri Keflavíkurflugvallar eða aðskildu útboði fyrir rekstur innanlandsflugvalla.
  2. Veita Samgöngustofu heimildir til að setja reglur um flugvallargjöld sem rekstraraðilar á Keflavíkurflugvelli þurfa að greiða. Skoða að setja sérstaka eigendastefnu fyrir Isavia þar sem fram komi efnahagsleg og samfélagsleg markmið með rekstri félagsins.
  3. Isavia ætti að endurskoða hvernig sérleyfissamningar eru veittir fyrir sölu veitinga og annars varnings í flugstöðinni og fyrir aðstöðu fyrir langferðabíla, með það að leiðarljósi að draga úr háum kostnaði fyrir neytendur og þjónustuaðila. Horfa ætti til víðtækari markmiða en hámörkunar hagnaðar Isavia.

Leigubifreiðar  

Leigubifreiðar gegna mikilvægu hlutverki í ferðaþjónustu á Íslandi, einkum í farþegaakstri á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni. Gildandi regluverk um leigubifreiðar á Íslandi sætir endurskoðun um þessar mundir vegna athugasemda Eftirlitsstofnunar EFTA. Ætla má að sú endurskoðun komi til með að draga úr umfangsmiklum samkeppnishindrunum í núgildandi regluverki og mögulega opna markaðinn fyrir starfsemi farveituþjónusta. Engu að síður er frekari breytinga þörf til að fjarlægja óþarfa reglubyrði sem hvílir á aðilum markaðarins og tryggja aðstæður fyrir heilbrigða samkeppni.

Helstu tillögur

  1. Afnema námskröfur sem gerðar eru til handhafa leigubílaleyfa sem ekki varða öryggi farþega, ökumanna eða almennings. Þannig er unnt að draga úr umfangi náms og lækka kostnað.
  2. Heimila útgáfu leigubílaleyfa til fyrirtækja og gera þeim kleift að hafa á hendi fleiri en eitt leigubílaleyfi.
  3. Tryggja þarf að gildandi löggjöf um leigubifreiðar hindri ekki nýsköpun á markaðinum.
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK