Bréf Norwegian halda áfram að hrapa

Norwegian er líkt og önnur flugfélög í mikilum erfiðleikum vegna …
Norwegian er líkt og önnur flugfélög í mikilum erfiðleikum vegna Covid-19. AFP

Gengi bréfa norska flugfélagsins Norwegian hafa fallið um rúmlega 15% í viðskiptum í kauphöllinni í Ósló í morgun. Stendur gengi félagsins nú í um 0,4 norskum krónum á hlut. Gengi bréfa félagsins var um 39 krónur á hlut fyrir kórónuveirufaraldurinn, en lækkaði niður í rúmlega 8 krónur í byrjun faraldursins. Síðan þá hefur gengið lækkað jafnt og þétt.

Í gær var greint frá því að félagið hefði lýst yfir gjaldþroti hjá tveimur af helstu dótturfélögum sínum, sem skráð eru á Írlandi. Var það gert til þess að félagið gæti komist í skjól frá lánardrottnum á meðan reynt væri að finna lausn á fjárhagsvanda félagsins.

Fyrr í mánuðinum neitaði norska ríkið félaginu um frekari stuðning, en forstjóri félagsins brást ókvæða við ákvörðuninni og sagði hana „með öllu óskilj­an­lega“. Sagði forstjórinn að eina leiðin fyrir félagið til að lifa veturinn af væri að fá ríkisstuðning. Í framhaldinu var greint frá því að félagið ætti um 318 milljónir evra, eða tæpa 52 milljarða íslenskra króna í handbært fé til að reka félagið í vetur.

Á þriðja árs­fjórðungi voru aðeins 25 af 140 farþegaþotum fé­lags­ins í notk­un en tap fé­lags­ins nam rúm­um millj­arði norskra króna, sem svar­ar til 15 millj­arða ís­lenskra króna. Á sama tíma­bili í fyrra nam hagnaður þess 1,7 millj­örðum norskra króna. Á fyrstu níu mánuðum árs­ins nam tapið 6,4 millj­örðum norskra króna, sem svar­ar til rúm­lega 97 millj­arða íslenskra króna. 

Yfir 10 þúsund manns störfuðu hjá flug­fé­lag­inu fyr­ir kór­ónu­veirufar­ald­ur­inn en í gær var greint frá því að 1.600 til viðbót­ar hefðu verið send­ir heim með svo­kallaðri permitter­ingu, en þá nýt­ur starfs­fólk launa­greiðslna að hluta, fyrstu dag­ana frá vinnu­veit­anda en eft­ir það frá norsku vinnu­mála­stofn­un­inni NAV. Það þýðir að nú eru um 600 manns í vinnu hjá fé­lag­inu þar sem aðeins sex flug­vél­ar verða í rekstri á næst­unni. 

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK