Landsbankinn hyggst selja í Stoðum

Stoðir fjárfesta á markaði hér heima og einnig í Bretlandi.
Stoðir fjárfesta á markaði hér heima og einnig í Bretlandi. mbl.is/Golli

Landsbankinn hefur auglýst 12,1% eignarhlut sinn í fjárfestingafélaginu Stoðum hf. til sölu. Félagið er í meirihlutaeigu einkafjárfesta.

Segir í auglýsingu frá bankanum að söluferlið fari fram í samræmi við stefnu bankans um sölu eigna og að öllum sem uppfylli skilyrði um að teljast hæfir fjárfestar sé bært að taka þátt.

Tilboðsfrestur í hlutinn er til 17.00 þriðjudaginn 8. desember næstkomandi.

Stærstur hluti félagsins er í höndum einkaaðila, m.a. Jóns Sigurðssonar, stjórnarformanns félagsins og áður forstjóra FL Group, Einars Arnar Ólafssonar, fyrrum forstjóra Skeljungs og Örvars Kjærnested, fjárfestis.

Stoðir eiga 5% hlut í Arion banka, 15% hlut í Símanum, 10% hlut í TM, 30% hlut í Ortus Secured Finance í Bretlandi og Félagið Bywater sem er fasteignafélag einnig í Bretlandi.

Samkvæmt hálfsársuppgjöri félagsins nam eigið fé þess 24,7 milljörðum króna 30. júní síðastliðinn en félagið tapaði 477 milljónum króna á fyrri árshelmingi, samanborið við tveggja milljarða hagnað yfir sama tímabil í fyrra.

Samkvæmt frétt Fréttablaðsins frá því í ágúst nam hagnaður félagsins á þriðja ársfjórðungi hins vegar 2,5 milljörðum króna.

Um mitt ár í fyrra var ákveðið að ráðast í hlutafjáraukningu í Stoðum. Var bókfært virði hins nýja hlutafjár 25% lægra en áætlað bókfært virði félagsins á þeim tíma. Landsbankinn var eini stóri hluthafi félagsins sem ekki tók þátt í hlutafjáraukningunni.

Samkvæmt fyrrnefndu hálfsársuppgjöri eru aðrir hluthafar í Stoðum, m.a. tveir sjóðir í stýringu Stefnis, Stefnir -ÍS 5 með 6,83% hlut og Stefnir -ÍS 15 með 3,29% hlut. Íslandsbanki heldur þá á 2% hlut í Stoðum.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK