Spá 60% tekjusamdrætti flugfélaga

Kórónuveirufaraldurinn hefur bitnað sérlega illa á flugfélögum.
Kórónuveirufaraldurinn hefur bitnað sérlega illa á flugfélögum. AFP

Heildartekjur flugfélaga verða 60% minni í ár en í fyrra vegna kórónuveirufaraldursins sem ógnar tilvist allrar greinarinnar. Þetta segir í skýrslu frá Alþjóðasambandi flugfélaga (IATA) sem birtist í dag.  Árið 2020 fari í sögubækurnar sem „versta ár frá upphafi“.

Fram kemur að flugfélög hafi samanlagt dregið úr útgjöldum sem nemur milljarði bandaríkjadala á dag (136 mö.kr.) með því að kyrrsetja vélar og segja upp starfsfólki. Engu að síður söfnuðu þau upp skuldum vegna „fordæmalauss“ taprekstrar.

Búist er við að heildartekjur flugfélaganna 290, sem standa að sambandinu, verði um 328 milljarðar dala (44.500 ma.kr.) á árinu. Félögin muni hafa tapað 118,5 milljörðum dala (16.100 mö.kr.) á árinu, en það er mun verri spá en gerð var í júní þegar búist var við 84,3 milljarða dala taprekstri.

Vonast er til að staðan batni á næsta ári, en þó gert ráð fyrir að félögin skili 38,7 milljarða dala (5.250 ma.kr.) tapi.

Verða að opna landamærin

„Kreppan er hrikaleg og vægðarlaus,“ sagði Alexandre de Juniac, framkvæmdastjóri hagsmunasamtakanna þegar hann ávarpaði ársþing þess sem nú fer fram í París. „Landamæri verða að vera opnuð án sóttkvíarráðstafana til að farþegar geti farið í flugferðir á ný.“

IATA hefur reynt að þrýsta á ríkisstjórnir mánuðum saman að innleiða skimanir fyrir brottfarir og leggja niður sóttkví við lendingu, en samtökin halda því fram að slíkt myndi gera félögunum kleift að ná sér á strik á ný án þess að koma niður á sóttvörnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK