Selja fyrir tvo milljarða í Controlant

Búnaður frá Controlant í notkun.
Búnaður frá Controlant í notkun.

Frumtak, samlagssjóður í eigu NSA, lífeyrissjóða og banka, hefur selt 11,33% hlut sjóðsins í Controlant, upplýsingatæknifyrirtæki sem þróað hefur hugbúnaðarlausnir með sérstaka áherslu á lyfjaiðnaðinn. Söluandvirði hlutarins nam tæpum tveimur milljörðum króna. Þetta kemur fram tilkynningu frá Arion Banka. 

Bankinn sá um söluferlið, en fjárfestahópur núverandi hluthafa í Controlant, leiddur af Investco ehf., keypti hlutinn, en hópurinn átti hæsta tilboðið.Controlant verður í lykilhlutverki í dreifingu á bóluefni gegn COVID-19. Viðskiptavinir félagsins stefna að því að dreifa bóluefni fyrir lok árs og á fyrri hluta næsta árs, en Controlant hefur þróað rauntímalausnir til að fylgjast með hitastigi og staðsetningu á viðkvæmum vörum í flutningi og geymslu.

Stolt af vexti síðustu ára

„Við hjá Frumtaki höfum verið afskaplega stolt af því að fylgja félaginu í gegnum ótrúlegan vöxt á undanförnum árum. Stofnendur, stjórnendur og starfsmenn Controlant hafa unnið þrekvirki og félagið er leiðandi á sínu sviði í heiminum,“ segir Svana Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Frumtaks.

„Það hefur verið gaman að starfa með Controlant og hluthöfum þess síðustu misseri og fylgjast með sókn félagsins erlendis. Þá er gott að sjá árangur vel heppnaðra sprotafjárfestinga innlendra stofnanafjárfesta og þann meðbyr sem Controlant hefur hjá fjárfestum, jafnt innlendum sem erlendum. Við hlökkum til að styðja áfram við félagið á komandi árum og fylgjast með því spennandi starfi sem þar er unnið,“ segir Lýður Þór Þorgeirsson forstöðumaður fyrirtækjaráðgjafar Arion banka.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK