12 af 17 milljörðum komu að utan

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála iðnaðar og nýsköpunar.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála iðnaðar og nýsköpunar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Á þessu ári hefur verið fjárfest í nýsköpunarfyrirtækjum fyrir um 17 milljarða, en stærstur hluti þeirrar upphæðar, eða um 12 milljarðar, kom frá öðrum löndum. Þetta kemur fram í samantekt sem Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar, segir frá í pistli sínum í Sunnudagsmogganum.

Þrátt fyrir hærri upphæð er þó um færri verkefni að ræða, en Þórdís segir það vísbendingu um að fyrirtækin séu komin yfir fyrstu stigin í vaxtarferli sínu og nær því að taka næstu stóru skref.

Nefnir hún sem dæmi um fyrirtæki sem hafi sótt fjárfestingu á árinu Sidekick Health, Controlant og Dohop.

Þá bendir Þórdís á að allmörg íslensk nýsköpunarfyrirtæki hafi fengið samtals 1,5 milljarða í evrópska þróunarstyrki á síðasta ári. Þar á meðal lyfjafyrirtækið EpiEnda, margmiðlunarfyrirtækið Oz, heilsufyrirtækið Saga Natura, lækningavörufyrirtækið Kerecis og matartæknifyrirtækið Curio.

Á þessu ári hafa hins vegar verið veittir evrópskir þróunarstyrkir upp á yfir þrjá milljarða. Langstærsta framlagið var 2,5 milljarðar til rannsóknarverkefnisins Svefnbyltingarinnar, en þá fékk Orf líftækni 400 milljóna króna styrk og Greenvolt 300 milljónir. Hið síðastnefnda vinnur að þróun á rafhlöðum með nanótækni.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK