Færa sig yfir í fasta vexti

Ófáir landsmenn hafa nýtt tækifærið undanfarna mánuði og ýmist tekið ný húsnæðislán eða endurfjármagnað gömul í ljósi mjög hagstæðra vaxta.

Þar af leiðandi hafa verið miklar sviptingar á lánamarkaði samhliða miklum umsvifum á fasteignamarkaði. Vextir Seðlabankans fóru niður í 1% í vor og héldust óbreyttir þangað til nokkuð óvænt vaxtalækkun kom í nóvember og standa stýrivextir nú í 0,75%, segir í nýrri skýrslu frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun ríkisins.

„ Einhverjar breytingar voru á vöxtum fjármálafyrirtækja í kjölfarið á vaxtalækkuninni. Bankarnir þrír lækkuðu breytilega vexti, bæði á verðtryggðum og óverðtryggðum lánum, um 0,1-0,2 prósentustig, en bæði Landsbankinn og Íslandsbanki hafa hækkað fasta óverðtryggða vexti. Þá hafa verðtryggðir vextir einnig lækkað hjá nokkrum lífeyrissjóðum.

Vextir á íbúðalánum halda því áfram að vera mjög lágir í sögulegu samhengi. Jafnframt er vaxtamunurinn á verðtryggðum og óverðtryggðum lánum áfram með allra lægsta móti sem hefur verulega ýtt undir vinsældir óverðtryggðra lána.

Fæstir lífeyrissjóðir bjóða upp á óverðtryggð lán og þeir sem bjóða upp á slík lán bjóða yfirleitt hærri vexti en bankarnir. Þessir þættir eiga líklega stærsta þáttinn í því að margir virðast vera að færa íbúðarlán sín frá lífeyrissjóðunum og til bankanna. Það sést glögglega á því að hrein ný útlán hjá bönkunum voru þó nokkuð hærri í október en þau hafa verið undanfarna mánuði, þrátt fyrir að hvert metið í útlánum á eftir öðru hafi verið slegið á undanförnum mánuðum. Þannig námu hrein ný útlán um 46 ma.kr. í október en þar af voru um 56 ma.kr. í óverðtryggðum lánum en hrein ný verðtryggð lán neikvæð um 10. ma.kr. Hrein ný útlán hjá lífeyrissjóðunum voru neikvæð um ríflega 9 ma.kr. en hafa áður mest verið neikvæð um ríflega 5 ma.kr. í júlí síðastliðnum og því ljóst að um miklar uppgreiðslur er að ræða hjá lífeyrissjóðum,“ segir í skýrslu HMS. 

Fleiri velja fasta vexti

Hingað til hafa óverðtryggð lán á breytilegum vöxtum verið nánast allsráðandi er kemur að nýjum lánum en nokkuð hefur aukist að fólk kjósi fasta vexti. Fastvaxtalán í október voru rúmlega fjórðungur af hreinum nýjum útlánum bankanna, en voru ekki nema 12% í september og á undan.

„Því höfðu hrein ný útlán á föstum óverðtryggðum vöxtum verið neikvæð frá því í september á síðasta ári. Þetta gefur til kynna að fólk búist við því að vextir fari að hækka á næstu misserum en óverðtryggð lán á föstum vöxtum eru að jafnaði með endurskoðunarákvæði á annað hvort þriggja eða fimm ára fresti og bera 0,7-1 prósentu vaxtaálag. Í heildina voru hrein ný útlán í október, fyrir allar lánastofnanir og allar tegundir lána, tæplega 30 ma.kr. sem er álíka og í september og í júlí, en það er hærra en í öllum öðrum mánuðum sem mælingar ná til. Fyrir vikið hafa skuldir heimilanna vegna íbúðalána hækkað nokkuð skarpt og nemur hækkunin um 6,7% á síðustu 12 mánuðum á föstu verðlagi.“

Óverðtryggð lán 38,8% af íbúðalánum heimilanna

Skuldbreytingar heimilanna úr verðtryggðum lánum yfir í óverðtryggð hafa gengið furðu hratt fyrir sig síðastliðin þrjú ár og þá sérstaklega á þessu ári. Í október féll enn eitt metið þegar hlutdeild óverðtryggðra lána í öllum útistandandi íbúðarlánum heimilanna jókst um meira en tvö prósentustig á milli mánaða. Í október síðastliðnum var hlutdeild óverðtryggðra lána komin í 38,8% en var 27,6% í janúar á þessu ári.

„ Um miklar sviptingar er að ræða á stuttum tíma þar sem tveggja prósentustiga breyting á heildarútlánum heimilanna jafngildir tæplega 40 ma.kr. og aldrei hafa orðið jafn miklar breytingar á hlutfallinu milli óverðtryggðra og verðtryggðra lána og í október,“ segir ennfremur í skýrslu HMS.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK