Ekki þessi hefðbundnu læti fyrir jólin

Fleiri versla fyrir jólin á netinu.
Fleiri versla fyrir jólin á netinu. Eggert Jóhannesson

Að sögn Andrés­ar Magnússonar, framkvæmdastjóra Samtaka verslunar og þjónustu, er ekk­ert nema gott að segja um jóla­versl­un­ina, nú þegar aðeins þrír dag­ar eru í jól­in. 

„Alveg greinilegt að áhrifin af því að stærri og stærri hluti viðskiptanna átti sér stað í nóvember og eru á netinu koma fram í því að það eru ekki þessi hefðbundnu læti svona síðustu dagana fyrir jól,“ seg­ir Andrés en bend­ir þó á að þessa allra síðustu daga fyr­ir jól sé alltaf mjög mikið álag á mat­vöru­versl­un­um. 

Andrés segir að þótt mikið sé að gera í jólaverslun sé það ekkert brjálæði og hafi verið stígandi í jólaverslun frá því í byrjun nóvember. 

Þá virki 100 manna fjölda­tak­mörk­un í hverri búð ágæt­lega. „Þetta rúll­ar bara prýðilega í gegn.“  

Jólaverslun flyst yfir í nóvember og á netið 

Ýmis met voru slegin í jólaverslun nú í nóvember. Velta Íslendinga í verslunum innanlands nam 46 milljörðum króna og hefur hún aldrei verið meiri í einum mánuði. Þá var netverslun í nóvember 368% hærri en í nóvember í fyrra. Þetta kemur fram á vef Rannsóknaseturs verslunarinnar. 

Auk þess  netverslun tæp 17% allrar verslunar á landinu í nóvembermánuði. Að sögn Andrésar hefur slík prósenta aldrei nokkurn tímann sést áður. 

Þessa hækkun í veltu netverslunar má rekja til blöndu samkomutakmarkana og afsláttardaga í nóvember. 

„Það sem er að breytast og hefur breyst núna mjög mikið undanfarin þrjú, fjögur ár er að stærri hluti jólaverslunarinnar flyst yfir í nóvember og það er einkum vegna þessara stóru, alþjóðlegu viðskiptadaga eins og stafræns mánudags og svarts föstudags sem eru í nóvember. Það eru gífurlega mikil viðskipti tengd jólunum sem færast yfir á þessa daga,“ segir Andrés.  

Andrés bendir einnig á að fjöldatakmarkanir sem voru í verslunum í nóvember hafi ýtt undir að fólk nýtti sér þessa daga og ætti viðskipti á netinu, en fram til 10. desember máttu einungis tíu viðskiptavinir vera í hverju verslunarrými.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK