Mikil aukning á innflutningi neysluvara

mbl.is/Kristinn Magnússon

Verðmæti vöruinnflutnings nam 61,5 milljörðum króna í nóvember samanborið við 59,2 milljarða í nóvember 2019. Mest aukning, eða 43%, var í innflutningi á neysluvörum, s.s. heimilistækjum, fatnaði og lyfjum. Mestur samdráttur var í innflutningi á á eldsneyti og smurolíum sem dróst saman um 48% samanborið við nóvember 2019 að því er segir á vef Hagstofu Íslands.

Fluttar voru út vörur fyrir 50,7 milljarða króna í nóvember 2020 og inn fyrir 61,5 milljarða króna fob (66,2 milljarða króna cif). Vöruviðskiptin í nóvember, reiknuð á fob-verðmæti, voru því óhagstæð um 10,8 milljarða króna.

Til samanburðar voru vöruviðskiptin óhagstæð um tæpa 7 milljarða króna í nóvember 2019 á gengi hvors árs fyrir sig. Vöruviðskiptajöfnuðurinn í nóvember 2020 var því 3,8 milljörðum króna óhagstæðari en á sama tíma fyrir ári. Viðskipti með skip og flugvélar höfðu óveruleg áhrif á vöruviðskiptajöfnuðinn þennan mánuð.

Vöruskiptajöfnuður tímabilið janúar-nóvember 2020 var óhagstæður um 95,9 milljarða eða 10,3 milljörðum króna hagstæðari en á sama tímabili árið áður.

Verðmæti útflutnings dróst saman

Verðmæti vöruútflutnings í nóvember dróst saman um 1,5 milljarða eða um 2,8% í nóvember 2020, úr 52,2 milljörðum króna í 50,7 milljarða. Útflutningur sjávarafurða jókst um 2,9 milljarða eða um 14,9% á sama tíma og útflutningur á iðnaðarvörum dróst saman um 3 milljarða eða um 11,4%.

Verðmæti vöruútflutnings var 561,3 milljarður króna á fyrstu elleftu mánuðum ársins 2020 og lækkaði um 37,7 milljarða króna miðað við sama tímabil árið áður eða 6,3% á gengi hvors árs. Munar þar mestu um viðskipti með skip og flugvélar í janúar 2019 og minna verðmæti í útflutningi iðnaðarvara. Iðnaðarvörur voru 48,1% alls vöruútflutnings og var verðmæti þeirra 5,5% minna en á sama tíma árið áður. Sjávarafurðir voru 43,9% alls vöruútflutnings en verðmæti þeirra jókst um 1,3% á milli ára.

Verðmæti vöruinnflutnings var 657,2 milljarðar á fyrstu ellefu mánuðum ársins 2020 og lækkaði um tæpa 48 milljarða króna miðað við sama tímabil fyrir ári eða 6,8% á gengi hvors árs fyrir sig. Samdráttur var í nær öllum flokkum nema neysluvörum.

Hafa ber í huga að gengisvísitala (vísitala meðalgengis – viðskiptavog þröng) hækkaði um 15,8% á tímabilinu nóvember 2019 til nóvember 2020 segir á vef Hagstofunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK