Bandarískt fyrirtæki kaupir LS Retail

Magnús Norðdahl, forstjóri LS Retail
Magnús Norðdahl, forstjóri LS Retail mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Bandaríska tæknifyrirtækið Aptos hefur keypt íslenska hugbúnaðarfyrirtækið LS Retail, en LS Retail starfa 250 manns. Eftir kaupin verður LS Retail rekið sem sjálfstæð eining innan Aptos samstæðunnar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.

LS Retail þróar heildstæð verslunar- og afgreiðslukerfi fyrir verslanir, hótel, veitingastaði, apótek og bensínstöðvar. Fram kemur að kaupin komi í kjölfar þess að Goldman Sachs Merchant Bankin Division hafi keypt Aptos á síðasta ári. Hafi nýju eignarhaldi greitt fyrir aukinni fjárfestingu Aptos í nýsköpun og útrás á alþjóðlega markaði. Þá sé jafnframt horft til þess að hraða enn frekar vexti LS Retail eftir kaupin.

Magnús Norðdahl fer fyrir stjórnendateymi LS Retail. Magnús er forstjóri fyrirtækisins og býr að meira en 30 ára stjórnunarreynslu í hugbúnaðar-, upplýsingatækni-, lyfja- og bankageiranum. Í tilkynningunni er haft eftir Magnúsi að heimsfaraldurinn hafi hraðað breytingum í viðskiptaumhverfi fyrirtækjanna. „Fyrirtæki hafa alltaf og munu alltaf þurfa að takast á við breytingar. Fyrirtæki þurfa lausnir sem veita þeim þekkingu, innsýn og vissu. Stafvæðing (e. digitalization) er orðin enn brýnni en áður og þörfin fyrir heildstæðar viðskiptalausnir er meira knýjandi en nokkru sinni fyrr. Þarna eru LS Retail og Aptos í fremstu röð, og þessi þróun er tækifæri til að auka markaðshlutdeild fyrirtækjanna og hjálpa fleiri viðskiptavinum um allan heim,“ er haft eftir honum.

Fram kemur að LS Retail selji lausnir sínar til yfir 5.000 fyrirtækja, með yfir 80 þúsund sölustaði  í 140 löndum, en fyrirtækið er með höfuðstöðvar á Íslandi og skrifstofur í Asíu, Evrópu, Mið-Austurlöndunum og Norður-Ameríku.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK