Tekjurnar hafa margfaldast

Guðmundur Kristjánsson, stofnandi sprotafyrirtækisins Lucinity.
Guðmundur Kristjánsson, stofnandi sprotafyrirtækisins Lucinity. mbl.is/Hari

Íslenska nýsköpunarfyrirtækið Lucinity, sem býr til gervigreindarhugbúnað sem hjálpar fyrirtækjum í baráttunni gegn peningaþvætti, hefur komið vel undan kórónuveirufaraldrinum. Hjálpaði þar mikið til 860 milljóna króna fjármögnunin sem það tryggði sér í mars í fyrra, um það leyti sem veiran var að fara á flug.  

Á síðasta ári fjölgaði starfsmönnum fyrirtækisins úr 12 í 29 og eru starfsstöðvarnar orðnar fjórar, eða á Íslandi, í New York, London og Brussel. Hugmyndafræði Lucinity gengur út á að byggja brú á milli gervigreindar og hæfileika og innsæis mannsins. Reynt er að nýta það besta úr báðum heimum til að kalla fram betri árangur í vörnum gegn peningaþvætti en þekkst hefur. 

Aðeins tvö ár í stað fimm

Guðmundur Kristjánsson, framkvæmdastjóri og stofnandi fyrirtækisins, segir að fjármögnunin í fyrra ásamt fyrri fjármögnun og viðskiptasamningum við Kviku banka og suma af stærstu bönkum í heimi hafi gert það að verkum að fyrirtæki eiga núna auðveldara með að eiga við það viðskipti sökum betri umgjarðar. Tekjur Lucinity hafa þannig margfaldast með alþjóðlegum viðskiptum. „Við getum orðað það þannig að það tekur venjulega fimm ár að komast á þann stað sem við komumst á á aðeins tveimur,“ útskýrir Guðmundur, spurður út í tekjurnar.  

Skemmtilegt vinnuumhverfi mikilvægt

„Við erum á frábærum stað. Salan á kerfinu á þessu ári hefur gengið vel og við erum nú þegar búin að loka nýjum samningum á þessu ári,“ bætir hann við, greinilega hæstánægður með hvernig nýtt ár fer af stað. Hann nefnir að gagnavísindamenn í heimsklassa starfi hérlendis hjá fyrirtækinu og þeir séu góð viðbót við þá verkfræðikunnáttu sem var fyrir. „Við höfum fundið mikinn þekkingarkraft í því að nota verkfræði- og tölvunarfræðikunnáttu með því að blanda henni saman við það sem gagnavísindamenn hafa fram að færa og gert þetta að alvöruvöru,“ greinir Guðmundur frá og segir fyrirtækið vilja byggja upp skemmtilegt vinnuumhverfi. Alltaf sé pláss fyrir gott og skemmtilegt fólk. „Við erum ekki bara að búa til tækni til góðs heldur skiptir máli að við séum góðir einstaklingar.“  

Frá undirritun samstarfssamnings Kviku og Lucinity árið 2019.
Frá undirritun samstarfssamnings Kviku og Lucinity árið 2019. Ljósmynd/Aðsend

Einn af fimm stærstu í heimi

Bæði erlendir og innlendir bankar og fjártæknifyrirtæki hafa keypt gervigreindarhugbúnað af Lucinity. Spurður nánar út í erlendu bankana segist hann ekki geta nefnt þá á nafn. Einn þessara kúnna er þó einn af fimm stærstu bönkum í heiminum. Sá hreifst svo mikið af tækninni að hann bauðst til að leggja fyrirtækinu lið. „Þeir leggja til tugi starfsmanna hjá sér til að þróa kerfið með okkur. Þetta er einsdæmi í Íslandssögunni, held ég, svona samningur,“ segir Guðmundur. Hann bætir við að einungis eitt annað fyrirtæki hafi unnið á þennan hátt með þessum stóra banka. Það sé eitt af þeim stærstu í Kísildalnum í Kaliforníu og um leið í heiminum.  

Spurður út í samkeppnina á markaðnum þegar kemur að hugbúnaði gegn peningaþvætti segir Guðmundur hana vera þrískipta. Fyrst nefnir hann stór fyrirtæki á borð við Oracle, NICE, IBM, og Fico. Þau séu „eldri borgararnir“ í bransanum með gamla tækni. Síðan nefnir hann nýsköpunarfyrirtæki sem voru stofnuð á undan Lucinity sem séu að reyna að breyta sér í gervigreindarfyrirtæki. Loks tilgreinir hann nokkur erlend nýsköpunarfyrirtæki sem hafi ekki vaxið eins hratt og íslenska fyrirtækið en séu að reyna að komast inn á gervigreindarmarkaðinn.  

Besti nýliðinn

Lucinity vann verðlaun sem besti nýliðinn á Norrænu nýsköpunarverðlaununum í fyrra. Einnig hefur fyrirtækið hlotið viðurkenningu frá breska utanríkisráðuneytinu sem eitt af mest spennandi sprotafyrirtækjum Evrópu. Á næstu vikum keppir það síðan í alþjóðlegri lokakeppni vegna Tech Rocketship-verðlaunanna.

Guðmundur segir viðurkenningarnar hafa tvíþætta merkingu. Annars vegar sálræna sem snýst um að fyrirtækið veit að það er á réttri vegferð og hins vegar að viðurkenningarnar nýtist vel í kynningarskyni erlendis. „Þegar maður reynir að búa til Google norðursins, fyrirtæki sem er á klassa við Google á Íslandi með samstarfi við erlenda aðila, þá er gott að vita þegar við kynnum okkur fyrir erlendum bönkum og fagaðlinum í erlendri samkeppni að við erum á réttri leið,“ segir hann og horfir björtum augum til framtíðar. 

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK