Landsmenn tóku meira eldsneyti á Covid-tímum

Landsmenn voru duglegir að ferðast og taka eldsneyti í fyrra, …
Landsmenn voru duglegir að ferðast og taka eldsneyti í fyrra, sérstaklega yfir sumarmánuðina. mbl.is/Golli

Eldsneytissala á fjórða ársfjórðungi síðasta árs var rúmlega 74 þúsund rúmmetrar samkvæmt bráðabirgðatölum sem Hagstofan birtir. Er það 9,6% minna en á sama ársfjórðungi árið 2019 þegar 82 þúsund rúmmetrar seldust. Þegar tekið er mið af eldsneyti sem afgreitt var á erlend greiðslukort sést að samdrátturinn er aðeins 1,5% og eru ferðalög landsmanna um vegakerfið því sambærileg og á síðasta ársfjórðungi ársins 2019.

Þegar horft er á árið í heild minnkaði eldsneytissala um 4%, fór úr 361,7 þúsund rúmmetrum í 347,1 þúsund rúmmetra. Sú lækkun kemur þó öll til og meira en það vegna samdráttar í afgreiðslu þar sem greitt var með erlendum greiðslukortum.

20% meira eldsneyti tekið á innlend kort í sumar

Þannig voru um 47,4 þúsund rúmmetrar af eldsneyti afgreiddir á erlend greiðslukort árið 2019, en árið 2020 voru það aðeins 12,3 þúsund rúmmetrar. Er það um 74% samdráttur, eða um 35 þúsund rúmmetrar. Á sama tíma jókst sala á innlendum greiðslukortum um 13,5 þúsund rúmmetra, úr 228,6 þúsund rúmmetrum árið 2019 í 242,1 þúsund rúmmetra í fyrra. Nemur það 5,9% aukningu.

Minni ferðalög Íslendinga erlendis og aukin ferðalög heima fyrir koma því skýrt í ljós í þessum tölum, en 93% af aukinni sölu á innlendum greiðslukortum á sér stað í júní, júlí og ágúst. Nam aukin sala þessa mánuði á innlendum kortum um 20% og fór úr 65 rúmmetrum upp í 77,5 þúsund rúmmetra.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK