„Ætlum að vera hjólreiðaborg í fremstu röð“

Dagur B. Eggertsson.
Dagur B. Eggertsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Á þessu ári áformar Reykjavíkurborg að fjárfesta fyrir 28,6 milljarða og að fjárfestingar b-hluta borgarinnar og Strætó verði um 5,9 milljarðar. Samtals áætlar borgin því að framkvæmdir á vegum hennar verði um 34,7 milljarðar á árinu.

Stærstur hluti fjármagnsins er eyrnamerktur í samfélagslega innviði, en það á við um leikskóla, grunnskóla, íþróttamannvirki, íbúðakjarna, vistheimili, hjúkrunarrými og menningarinnviði. Samtals fara um 14 milljarðar í þennan flokk á árinu. Þetta var meðal þess sem kom fram í máli Dags B. Eggertssonar borgarstjóra á Útboðsþingi Samtaka iðnaðarins í dag.

Tölurnar eru í samræmi við það sem kynnt var í sóknaráætlun Reykjavíkurborgar í desember, en samtals er horft til þess að fjárfesting borgarinnar og fyrirtækja hennar verði 175 milljarðar á næstu þremur árum.

Dagur sagði að árið verði vonandi gríðarstórt ár í framkvæmdum. „Við þurfum öll á því að halda,“ bætti hann við og vísaði til atvinnuástands vegna faraldursins. Ítrekaði hann að á næstu 10 árum væri stefnt að því að byggja 10 þúsund nýjar íbúðir í borginni.

Þegar rýnt er betur í þá fjárfestingu sem er fram undan er gert ráð fyrir að 3 milljarðar fari í græn íbúðahverfi og 2 milljarðar í atvinnusvæði. Í tilfelli atvinnusvæða fara um 770 milljónir í miðborgina, 280 milljónir í Gufunes og 250 milljónir í vísindaþorp í Vatnsmýri.

5,4 milljarðar eru áformaðir á árinu í stafræna umbreytingu. Fram kom í erindi Dags að horft sé til þess að á næstu þremur árum verði öll þjónusta og afgreiðsla sem hægt er að færa á netið umbreytt, en samtals verður 10 milljörðum varið í verkefnið á næstu þremur árum.

2,7 milljarðar fara í samgöngumál. Þar af fara 565 milljónir í samgöngusáttmálann, 575 milljónir í borgargötur, 495 milljónir í þjóðvegi og 850 milljónir í uppbyggingu göngu- og hjólastíga. „Við ætlum að vera hjólreiðaborg í fremstu röð,“ sagði Dagur í erindi sínu, en horft er til þess að gera heildstætt hjólastígakerfi fyrir höfuðborgarsvæðið í samvinnu við ríkið og sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu.

Fjárfestingaáætlun Reykjavíkurborgar næsta áratuginn í tengslum við græna planið.
Fjárfestingaáætlun Reykjavíkurborgar næsta áratuginn í tengslum við græna planið. Graf/Reykjavíkurborg

Fimm milljarðar fara í ýmiss græn umhverfisverkefni, en þar á meðal er um 1 milljarður í endurvinnslu, 1,4 milljarðar í orkuskipti, 672 milljónir í kolefnisbindingu, 480 milljónir í borgargarða og 1 milljarður í aðrar aðgerðir.

Eins og fyrr segir eiga 14 milljarðar að fara í samfélagslega innviði, en þar telja leikskólar fyrir um 3 milljörðum og grunnskólar sömu leiðis fyrir 3 milljörðum. Þá eiga 2,7 milljarðar að fara í uppbyggingu íþróttamiðstöðvarinnar í Úlfarsárdal og 550 milljónir í Laugardal. 1,6 milljarðar fer í önnur íþróttamannvirki og 2 milljarðar samtals í íbúðakjarna, vistheimili barna, smáhýsi og fjölgun hjúkrunarrýma. Að lokum eiga um 900 milljónir að fara í menningarinnviði.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK