Covid-19, bólusetningar og ferðamenn

mbl.is/Kristinn Magnússon

Framþróun Covid-19-faraldursins, bólusetningar og fjöldi ferðamanna mun hafa mest að segja um þróun efnahagsmála hér á landi næsta kastið segir í þjóðhagsspá Íslandsbanka. Af því tilefni inniheldur þjóðhagsspáin að þessu sinni dökka og bjarta sviðsmynd, til viðbótar við grunnspá, þar sem reiknað er með færri og fleiri ferðamönnum að því er segir á vef Íslandsbanka.

Þrátt fyrir að faraldurinn hafi reynst þrálátari en væntingar stóðu til um er í spánni gert ráð fyrir að faraldurinn renni sitt skeið á árinu, endurreisn ferðaþjónustu hefjist a.m.k. að hluta og hagkerfið taki að braggast á seinni helmingi ársins. 

Spá 3,1% hagvexti í ár

„Við spáum því að hagvöxtur mælist 3,2% á yfirstandandi ári. Vöxtinn má að stærstum hluta þakka bata í útflutningi ásamt hóflegum vexti neyslu og fjárfestingar. Á næsta ári er hins vegar útlit fyrir 5% hagvöxt enda eru horfur á að bæði útflutningur og innlend eftirspurn nái enn sterkari viðspyrnu það ár. Á lokaári spárinnar, 2023, gerum við svo ráð fyrir 3,6% vexti þar sem útflutningur, fjárfesting og neysla skýra hvert um sig u.þ.b. þriðjung vaxtarins. Gangi spáin eftir verður landsframleiðslan loks meiri að raunvirði en hún var fyrir kórónukreppu á lokaári spárinnar,“ segir í þjóðhagsspánni.

700 þúsund ferðamenn í ár

Sviðsmyndin sem liggur til grundvallar hagspá Íslandsbanka hljóðar upp á að 700 þúsund ferðamenn komi hingað til lands sem að langstærstum hluta komi á seinni hluta ársins.

„Á næsta ári gerum við ráð fyrir 1,3 milljónum ferðamanna og einni og hálfri milljón ferðamanna árið 2023. Auk miðspárinnar settum við saman bjartsýnismynd þar sem við teljum u.þ.b. 10% líkur á að þróunin verði í samræmi við hana eða enn betri og svartsýnismynd þar sem u.þ.b. 10% líkur eru á þeirri eða enn verri niðurstöðu.

Gangi bjartsýnismyndin eftir verða ferðamenn tæplega 1,0 milljón talsins á þessu ári, ríflega 1,5 milljónir á næsta ári og 1,8 milljónir árið 2023. Ef hlutirnir þróast hins vegar í takti við svartsýnismyndina verða erlendir ferðamenn einungis 400 þúsund í ár en 1,0 milljón á næsta ári og 1,3 milljónir eftir tvö ár.

Framangreindar sviðsmyndir um fjölda ferðamanna breyta svo verulega efnahagshorfunum til skamms og meðallangs tíma að okkar mati. Ef bjartsýna spáin gengur eftir gæti hagvöxtur hér á landi slagað hátt í 5% í ár.

Atvinnuleysi myndi minnka allhratt, krónan styrkjast hraðar en ella, verðbólga hjaðna hratt og innlend eftirspurn fara á verulegan skrið upp úr miðju ári. Fari hlutirnir hins vegar á verri veg í ferðaþjónustunni verður hagvöxtur í ár líklega ekki mikið yfir prósentu.

Atvinnuleysi verður yfir 10% stærstan hluta ársins, krónan á undir högg að sækja lengst af, verðbólga verður þrálátari en ella og innlend eftirspurn á erfitt uppdráttar. Vöxturinn myndi þá í mun meiri mæli færast yfir á næsta ár. Það hefði hins vegar í för með sér mun víðtækari gjaldþrot fyrirtækja og greiðsluerfiðleika heimila, langvinnari halla á opinberum fjármálum og hættu á að margs konar samfélagsleg vandamál myndu ná að grafa um sig sem erfitt gæti reynst að vinda ofan af. Það skiptir því miklu máli að ferðaþjónustan nái vopnum sínum fyrr en síðar.

Gangi spá okkar um 700 þúsund ferðamenn eftir yrði fjöldi þeirra í ár rétt um þriðjungur af fjöldanum árið 2019. Tekjuvöxtur í ferðaþjónustunni yrði samt sem áður ríflega 40% á milli ára og munar um minna. Við það bætist nokkur vöxtur í vöruútflutningi í ár. Þar má nefna eldisfisk, ál og aðrar iðnaðarvörur sem líklega vaxtarbrodda. Því er í heildina útlit fyrir nærri 12% vöxt útflutnings í ár.

Ferðamannastraumur næsta árs skilar svo megninu af rúmlega 16% útflutningsvexti það ár. Á lokaári spárinnar gerum við ráð fyrir hóflegri útflutningsvexti, eða 5,0%. Þróun innflutnings hefur fylgt útflutningi fast á hæla undanfarið og mikill samdráttur hans í fyrra linaði verulega höggið á viðskiptajöfnuð vegna ferðaþjónustunnar. Líkt og útflutningur lítur út fyrir að innflutningur taki vel við sér bæði í ár og næsta ár og vaxi um nærri tíu af hundraði hvort ár. Vöxturinn er bæði vegna bata í útflutningi og ekki síður aukinnar innlendrar neyslu og fjárfestingar. Vöxtur útflutnings verður hins vegar hraðari en innflutningsvöxturinn bæði í ár og næsta ár og framlag utanríkisviðskipta til vaxtar því jákvætt. Það dæmi snýst hins vegar við á lokaári spárinnar,“ segir í þjóðhagsspá Íslandsbanka.

Horfur á að verðbólgan hjaðni hratt

Veiking krónu hefur sett mark sitt á verðbólguna frá því kórónukreppan brast á. Verðbólga óx jafnt og þétt á síðasta ári, var 2% í ársbyrjun 2020 en mældist 3,6% í desember síðastliðnum og 4,3% í janúar líkt og greint var frá á mbl.is í gær. 

„Hærra innflutningsverðlag skýrir verðbólgukúfinn að mestu en einnig hefur innlendur kostnaðarþrýstingur verið nokkur og íbúðaverð hækkað meira en við væntum eftir að kreppan brast á. Útlit er fyrir að verðbólgan verði talsverð á næstu mánuðum og við gerum ráð fyrir að hún mælist að jafnaði við 4% þolmörk verðbólgumarkmiðsins á fyrsta ársfjórðungi.

Eftir það eru horfur á að verðbólgan hjaðni allhratt eftir því sem slaki grefur um sig í hagkerfinu, áhrif gengisveikingarinnar fjara að fullu út og krónan tekur að styrkjast þegar lengra líður á árið. Verðbólga gæti því verið komin undir 2,5% markmið Seðlabankans fyrir árslok. Á seinni tveimur árum spátímans eru horfur á að verðbólga mælist að jafnaði rétt undir verðbólgumarkmiðinu. Við spáum 2,2% verðbólgu að jafnaði árið 2022 og 2,3% árið 2023,“ segir enn fremur í þjóðhagsspá Íslandsbanka.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK