Hafði búist við hærri tölum

Sigurður Hannesson framkvæmdastjóri SI.
Sigurður Hannesson framkvæmdastjóri SI. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir jákvætt að sjá að opinberir aðilar ætli að halda svipuðu fjárfestingarstigi og áformað var í fyrra, en að hann hafi búist við að sjá aðeins hærri tölur, sérstaklega í ljósi aðstæðna í efnahagslífinu og að tækifæri væru fyrir opinbera aðila til að stíga fastar inn meðan mikill slaki væri til staðar.

Í morgun fór fram Útboðsþing samtakanna, en þar er árlega farið yfir helstu tölur og verkefni sem fyrirséð er að verði hjá stærstu opinberu framkvæmdaaðilum. Er þar t.d. farið yfir fjárfestingar sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, Landsnets, Landsvirkjunar, Nýja Landspítalans, fjársýslu ríkisins og Vegagerðarinnar svo einhver dæmi séu tekin.

Í ár áforma þessir aðilar fjárfestingar upp á 139 milljarða, en í fyrra var talan um 132 milljarðar. Hins vegar endaði fjárfestingin í fyrra í um 94 milljörðum, en rekja má stóran hluta þess til þess að Isavia felldi niður svo gott sem allar framkvæmdir í kjölfar kórónuveirufaraldursins og þá varð fjárfesting Vegagerðarinnar einnig nokkuð lægri en áformað var.

Frekari fjárfestingar sem mótvægi við faraldrinum

Sigurður segir í samtali við mbl.is að jákvætt sé að sjá þessa aðila vera að bæta aðeins í á milli ára, þó að upphæðin sé svipuð sem hlutfall af landsframleiðslu. Hann telur þó að réttast hefði verið að nota árferðið og bæta enn frekar í.  „Við hefðum viljað sjá enn frekari fjárfestingu sem mótvægi við faraldrinum,“ segir Sigurður og bætir við: „Það er þörf og líka skynsamlegt að ráðast í framkvæmdir þegar það er slaki.“

Bendir Sigurður á að atvinnuvegafjárfesting sé að dragast vel saman og þá væri skynsamlegt fyrir hið opinbera að nýta tækifærið og gefa vel í, en draga sig svo aftur saman þegar atvinnuvegafjárfesting og einkageirinn komist aftur á skrið.

Hefði viljað sjá hærri tölur hjá minni sveitarfélögum og Vegagerðinni

Fjárfesting Reykjavíkurborgar á árinu er áformuð um 28,6 milljarðar, en það er hækkun frá 19,6 milljörðum sem áformaðar voru í fyrra. Samtala fyrir önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu er á móti um 6,6 milljarðar, en í Reykjavík búa um 56% íbúa höfuðborgarsvæðisins. Sigurður segir að hann hefði viljað sjá hærri tölur hjá öðrum sveitarfélögum og það sama eigi við um Vegagerðina. Þar á bæ eru áformaðar framkvæmdir upp á 27,5 milljarða á árinu, en í fyrra var áætlunin upp á 38,7 milljarða, þó að niðurstaðan hafi verið um 31 milljarður þegar upp var staðið.

Isavia hafði í fyrra áformað fjárfestingu upp á rúmlega 20 milljarða en sló því svo gott sem öllu á frest. Í ár áformar félagið að fjárfeta fyrir 13,5 milljarða. Sigurður segir að þó hann hafi fullan skilning á að þar sé farið varlega í sakirnar eins og mál standi, þá sé í ár besti tíminn fyrir Isavia til að standa í framkvæmdum, enda sé umferð um flugvöllinn með minnsta móti.

Fyrirséður skortur á íbúðum kallar á fleiri lóðir

Í dag fór einnig fram Húsnæðisþing Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, þar sem ný greining á húsnæðismarkaðinum var kynnt. mbl.is hefur fyrr í dag fjallað um skýrsluna, en þar er meðal annars dregin upp sú mynd að framundan sé umtalsverð vöntun á íbúðum og að óbreyttu muni sú vöntun aðeins aukast. Sigurður segir að þarna sé vandamál í uppsiglingu og áhyggjuefni hvað lítið er verið að byggja.

Segir hann að þrátt fyrir að umtalsverður fjöldi íbúða sé í byggingu, þá sé lítið af íbúðum á fyrstu byggingarstigum. Það gefi forsmekk um að vandinn muni raungerast enn frekar eftir 1-2 ár.

Reykjavíkurborg hefur bent á framkvæmdir hafi byrjað við 1.174 íbúðir á síðasta ári í borginni, en Sigurður bendir á að stærstur hluti þessara íbúða sé á vegum Bjargs eða almennra leigufélaga. Það séu ekki nema örfáar íbúðir á fyrstu byggingarstigum fyrir almennan markað. Segir hann að þar þurfi að bæta í og að sveitarfélög þurfi að grípa fljótt inn í og úthluta lóðum til að koma í veg fyrir að skortur á komandi árum leiði til mikilla verðhækkana og í framhaldinu að farið sé í gamalkunnugt stef verðbólgu og launahækkana án innistæðu.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK