Lækkun leiguverðs gæti verið fram undan

Ólafur Sindri Helgason, yfirhagfræðingur HMS.
Ólafur Sindri Helgason, yfirhagfræðingur HMS. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þrátt fyrir að íbúðaverð hafi hækkað talsvert síðustu ár og útlit sé fyrir áframhaldandi skort íbúða á komandi árum er útlit fyrir að leiguverð fari lækkandi. Þetta kom fram í máli Ólafs Sindra Helgasonar, yfirhagfræðings Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, á Húsnæðisþingi í dag.

Ástæður þess að verðmyndun á leigumarkaði er á öfugri leið miðað við verð á fasteignamarkaði er að sögn Ólafs Sindra bæði að framboð leiguhúsnæðis hafi aukist talsvert og á sama tíma hafi talsverð færsla verið hjá yngstu hópum úr leiguhúsnæði yfir í foreldrahús og í eigið húsnæði.

Framboð leiguhúsnæðis hefur síðustu ár aukist meðal annars vegna þess að íbúðir rötuðu úr skammtímaleigu fyrir ferðamenn yfir á almenna markaðinn. Þá hafa leigjendur í auknum mæli yfirgefið leigumarkaðinn.

Ólafur Sindri segir að það sé vegna þess að ungt fólk, sérstaklega í aldurshópnum 25-34 ára, hafi getað nýtt sér úrræði stjórnvalda, meðal annars að ráðstafa viðbótarlífeyrissparnaði skattfrjálst til fasteignakaupa. Þá hafi einnig hlutdeildarlán hjálpað ungu fólki að eignast eigið húsnæði.

Í aldurshópnum 18-24 ára hefur tilfærslan hins vegar verið af leigumarkaði yfir í foreldrahús, en Ólafur Sindri segir að það geti meðal annars skýrst af því að í þessum aldurshópi sé nú atvinnuleysi hvað mest.

Undanfarið eitt og hálft ár hefur að þessum sökum leiguverð næsta staðið í stað, en Ólafur Sindri segir að enn gæti lækkun leiguverðs átt eftir að skila sér á markaðinn og segist hann geta séð fyrir sér slíka lækkun fram undan.

Yfirhagfræðingur HMS sér fyrir lækkun á leigumarkaði.
Yfirhagfræðingur HMS sér fyrir lækkun á leigumarkaði. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK