„Teljum að það muni verða frekari verðhækkanir“

Sérfræðingar HMS spá því að íbúðaverð muni hækka á komandi …
Sérfræðingar HMS spá því að íbúðaverð muni hækka á komandi misserum þar sem bæði sé framundan aukin eftirspurn og minna framboð. mbl.is/Arnþór Birkisson

Framundan eru líklega frekari verðhækkanir á íbúðahúsnæði, enda er bæði mikill þrýstingur á markaðinum og útlit er fyrir að talsvert færri íbúðir komi á markaðinn á komandi árum en þörf er fyrir. Þetta kom fram í máli sérfræðinga Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar á Húsnæðisþingi í dag.

„Við teljum að það muni verða frekari verðhækkanir,“ sagði Karlotta Halldórsdóttir, sérfræðingur á sviði stafrænnar stjórnsýslu HMS, þegar hún var spurð hvort fasteignabóla væri framundan. Sagði hún að ekki væri nægjanlegt magn fasteigna að koma inn á markaðinn og í slíku ástandi væru frekari hækkanir líklegar. Sagði hún ekkert benda til neins annars.

Ólafur Sindri Helgason, yfirhagfræðingur stofnunarinnar, hafði áður farið yfir stöðuna á fasteignamarkaðinum og hver þróunin yrði varðandi nýbyggingar. Eins og mbl.is fjallaði um fyrr í dag, stefnir í að skortur á húsnæði muni aukast á komandi árum samkvæmt greiningu HMS og uppsöfnuð þörf eftir húsnæði verði aftur sambærileg og hún var árið 2019. Sagði Ólafur að hann ætti ekki von á að byggingarmarkaðurinn myndi bregðast nógu hratt við fyrirséðum skorti.

Bæði tóku fram að það væri þó ekki nóg að byggja bara hvað sem er, því mesta þörfin yrði í einstaklingsheimilum, þ.e. eftir litlum íbúðum. Sagði Karlotta að þó viðsnúningur hafi verið í byggingu slíkra íbúða síðustu ár, þá þyrfti enn að koma mikil aukning í þessum flokki. Sagði Ólafur Sindri að þetta væri lykillinn að því að vinna á uppsafnaðri þörf og að bæði þyrfti að byggja meira og réttu íbúðirnar.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK