Hámarksverð fyrir Íslandsbanka ekki aðaláhersla

Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra, segir að þó færa megi rök fyrir því að hægt væri að fá hærra verð með sölu Íslandsbanka til kjölfestufjárfestis eða eins aðila, þá trompi það ekki önnur markmið sem sett hafa verið fram með sölunni. Það séu önnur atriði sem skipti meira máli til að mögulegt útboð á hlutum í bankanum flokkist sem vel heppnað. Hann segist sjá fyrir sér að ríkið gæti fengið að lágmarki 119 milljarða samtals í sinn hlut þegar búið er að selja alla hlutina í bankanum. Þetta kom fram í máli hans á rafrænum fundi sem Sjálfstæðisflokkurinn stóð fyrir í dag vegna sölunnar.

Bjarni sagði á fundinum að meiri áhersla væri á góða sátt, gegnsæi, opið ferli og möguleika fyrir almenning til að taka þátt. Benti hann á að þetta hefðu verið áherslumál eftir að málið fór til umræðu hjá þingnefndum og að menn hefðu mikið horft til þess að ná dreifðu eignarhaldi. „Ég er sammála því,“ sagði Bjarni og bætti við að það væri skoðun sín þótt fræðilega ætti að vera hægt að ná hærra verði með öðrum leiðum.

Þá vísaði Bjarni einnig til þess að unnið væri með þá hugmyndafræði að fá sem mesta samkeppni á fjármálamarkaði, jafnvel þótt stærri bankaeiningar gætu leitt til hagræðis.

Útboð í júní samkvæmt tímalínu

Eins og fram hefur komið er stefnt að því að selja 25-35% hlut í bankanum í útboðinu, en á föstudaginn fór Bjarni yfir stöðu málsins í ríkisstjórn og er Bankasýslan nú með málið til meðferðar við að undirbúa útboðið. Bjarni sagði á fundinum að miðað við tímalínu mætti gera ráð fyrir að undirbúningur fyrir skráningu myndi halda áfram næstu mánuði, en að frumkynning fyrir fjárfesta væri í mars. Lokakynning fyrir fjárfesta yrði í lok maí og birting skráningarlýsingar í byrjun júní og öflun tilboða yrði einnig í júnímánuði. Það ætti svo að liggja ljóst fyrir í lok júnímánaðar með afstöðu ráðherra til tilboða og með lokaafstöðu til skráningar.

Brot úr þeim glærum sem Bjarni birti á fundinum.
Brot úr þeim glærum sem Bjarni birti á fundinum. Graf/Stjórnarráðið

Bjarni fór í erindi sínu yfir forsögu þess að selja ætti hluti ríkisins í bankanum sem og vangaveltur t.d. um hvort nú væri réttur tími til að selja banka. Sagði hann að aðstæður núna væru allt öðruvísi en þegar einkavæðing bankanna átti sér stað um síðustu aldamót. Þannig væru kröfur á fjármálafyrirtæki mun strangari í dag og það kæmi t.d. vel í ljós með eiginfjárkröfur upp á yfir 20% hjá öllum bönkunum. Það hefði t.d. sýnt sig þegar kórónuveiran kom að fjármálafyrirtækin væru vel í stakk búin til að bregðast við stöðunni, þrátt fyrir mestu niðursveiflu í 100 ár. Þá vísaði hann til þess að eignarhald ríkisins í fjármálakerfinu væri um 15% af landsframleiðslu og að það væri margfalt meira en í öðrum löndum í nágrenni okkar.

„Fjármunir almennings eru betur nýttir annars staðar“

Sagði hann jafnframt að miðað við t.d. Arion banka, sem er skráður á markað, væru fjárfestar almennt að meta fjármálafyrirtæki hér nokkuð hátt. Þá væru erlend ríki einnig að selja banka þessi misserin og síðustu ár. Þá væri ríkið ekki heldur heppilegur eigandi að stórum hlut í fjármálakerfinu og ítrekaði hann þá skoðun með orðunum „fjármunir almennings eru betur nýttir annars staðar“.

Arðgreiðslur frá Íslandsbanka og reyndar hinum stóru viðskiptabönkunum líka hafa verið nokkuð ríflegar undanfarin ár, en Bjarni sagði að ekki væri hægt að gera ráð fyrir þeim áfram þar sem stærstur hluti þeirra væri byggður á virðisbreytingum.

Bjarni benti svo á að vegna góðrar skuldastöðu ríkissjóðs hefði verið hægt að mæta efnahagssamdrætti vegna kórónuveirunnar nokkuð vel hér á landi. Þannig stefndi í að halli ríkissjóðs á þessu ári yrði um 326 milljarðar. Sú tala er um 40% af tekjum ríkissjóðs á árinu og sagði Bjarni að því væri mikilvægt að aðeins væri um tímabundna stöðu að ræða sem væri hægt að snúa við og sala á bankanum væri hluti þeirrar lausnar.

Allavega 119 milljarðar fyrir Íslandsbanka

Vísaði hann til þess að á næstu fimm árum væri gert ráð fyrir um 119 milljörðum í allskonar fjárfestingu og innviðaverkefni ríkisins. Þar á meðal væru samgöngumannvirki, rannsóknir og nýsköpun, umbreyting með stafrænu Íslandi og öðrum upplýsingatækniverkefnum, orkuskipti og grænar lausnir og að lokum viðhald, endurbætur og nýbyggingar.

Sagði Bjarni að ef allur bankinn væri seldur á fjórum árum væri óhætt að segja að sú upphæð kallaðist ágætlega á við þessa fjárfestingu og að nokkuð öruggt ætti að vera að sú upphæð fengist í það minnsta fyrir öll hlutabréf ríkisins í bankanum.

Bjarni sagði að búast mætti við allavega 119 milljörðum fyrir …
Bjarni sagði að búast mætti við allavega 119 milljörðum fyrir alla hlutina í Íslandsbanka, en stefnt er að því að selja 25-35% á þessu ári. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Næstu skref á borði næstu ríkisstjórnar

Bjarni var spurður um næstu skref með sölu hluta ríkisins eftir að þessu útboði væri lokið. Sagði hann að ríkið væri skuldbundið til að selja ekki fleiri hluti í hálft ár og að í millitíðinni ættu sér stað kosningar. Næstu skref væru því ekki á hendi núverandi ríkisstjórnar. Hann sæi hins vegar fyrir sér, ef aðstæður leyfðu, að halda ætti áfram með að losa um eignarhaldið eftir því sem markaðurinn geti tekið við á komandi misserum og árum. Tók Bjarni fram að hann teldi ekki að selja ætti alla hlutina árið 2022, en að það ætti að koma til skoðunar að losa áfram um eignarhaldið þá.

Bjarni var spurður út í þá hugmynd að afhenda landsmönnum 5% hlut í bankanum. Sagði hann að það væri verðug hugmynd og hefði verið rædd, en að ekki væri nægjanlega breið samstaða um málið og því hefði ekki verið lögð áhersla á þessa leið við þetta skref. Útilokaði hann ekki að þetta gæti verið skoðað við frekari sölu hluta ríkisins.

Bjarni var einnig spurður út í mögulega sölu á eignarhlutum ríkisins í Landsbankanum. Sagðist hann telja rétt að ríkið færi með meirihlutaeign í einum kerfislega mikilvægum banka til að tryggja að slík fjármálastofnun væri með höfuðstöðvar hér á landi. Væri það í samræmi við afstöðu Norðmanna í þessum málaflokki. Hins vegar teldi hann alveg hægt að skrá Landsbankann á markað og selja hluti í bankanum. Bjarni tók þó fram að hann teldi ekki rétt að gera það fyrr en söluferli Íslandsbanka hefði verið klárað.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK