Enn fækkar ferðamönnum í spá Seðlabankans

Seðlabankinn gerir nú ráð fyrir að ferðamenn á árinu verði …
Seðlabankinn gerir nú ráð fyrir að ferðamenn á árinu verði um 700 þúsund. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Seðlabanki Íslands spáir því að fjöldi ferðamanna sem komi hingað til lands á þessu ári verði um 700 þúsund. Þetta kemur fram í nýjasta hefti Peningamála sem bankinn gaf út í dag. Lækkar spá bankans frá í nóvemberhefti Peningamála þegar spáð var 750 þúsund ferðamönnum og frá ágústheftinu þegar spáð var einni milljón ferðamanna árið 2021.

Kemur þessi fækkun í spá bankans til meðal annars vegna þess að ekki er gert ráð fyrir að ferðamönnum fjölgi að neinu ráði fyrr en líða tekur á sumarið þegar ferðatakmarkanir milli Bandaríkjanna og Evrópu falla úr gildi og dregið verður úr sóttvarnaraðgerðum á landamærum. Þá segir einnig að áframhaldandi útbreiðsla farsóttarinnar í upphafi þessar árs og harðar sóttvarnaraðgerðir geri það að verkum að horfur í ferðaþjónustu hafi heldur versnað þrátt fyrir jákvæðar fréttir af bóluefnum gegn farsóttinni.

Seðlabankinn telur að útflutningur á þjónustu á heildina litið muni svo vaxa um tæplega 50% á næsta ári, enda hafi framleiðslugeta ferðaþjónustu í meginatriðum varðveist.

Í spánni er miðað við að slakað verði smám saman á sóttvörnum er líður á árið, en að gert sé ráð fyrir að sóttvarnir og samkomutakmarkanir verði við lýði í einhverri mynd fram á síðasta fjórðung ársins.

Minni samdráttur í einkaneyslu

Fram kemur að einkaneysla hér á landi hafi verið nokkuð breytileg á síðasta ári, en búist er við að neyslan á fjórða ársfjórðungi hafi minnkað frá þriðja ársfjórðungi. Á árinu í heild er því talið að einkaneysla hafi dregist saman um 4,4% sem er ríflega einu prósentustigi minni samdráttur en spáð var í nóvember. Spáir Seðlabankinn að batinn verði hægur, en að einkaneyslan muni vaxa á fyrsta ársfjórðungi þessa árs frá fjórðunginum á undan. Á árinu í heild er spáð 3,7% vexti einkaneyslu og á næstu tveimur árum ríflega 3% vexti á ári.

Samdráttur í opinberum fjárfestingum þvert á áætlanir stjórnvalda

Samneysla hér á landi jókst um 3,5% á fyrstu þremur ársfjórðungum síðasta árs. Samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar dróst fjárfesting hins opinbera hins vegar saman um 17,6% og er það talsvert meira en gert hafði verið ráð fyrir. Vísbendingar eru um að tafir umfram áætlanir hafi orðið á fjárfestingu á fyrri helmingi ársins hjá báðum aðilum, segir í spá bankans, en fjárhagsáætlanir stærstu sveitarfélaganna gera ráð fyrir að betur hafi gengið í fjárfestingum á seinni hluta ársins, þó mörg sveitarfélög hafi í reynd skorið niður. Bankinn spáir nú liðlega 7% samdrætti í fjárfestingu hins opinbera í fyrra, en það er þvert á áætlanir stjórnvalda.

Horfur um vöruútflutning í ár hafa hins vegar versnað, en þar vega lakari aflabrögð í botnfiski þungt, ásamt því sem leyfilegur afli uppsjávartegunda mun annað hvort standa í stað eða dragast saman. Þá gætir aukinnar svartsýni um markaðsaðstæður á alþjóðamörkuðum með sjávarafurðir og horfur um útflutning álafurða hafa versnað. Gert er ráð fyrir að vöruútflutningur í heild aukist um tæplega 1% en í nóvemberspá bankans var spáð um 2% vexti. Samkvæmt því mun útflutningur í heild því aukast um 9,8% í ár eða um 2 prósentustigum minna en áður var spáð.

Áfram er þó spáð liðlega 22% vexti útflutnings á næsta ári og að hann hjaðni í tæplega 7% árið 2023.

Hagvaxtarhorfur á svipuðum stað

Hagvaxtarhorfur fyrir þetta ár eru svipaðar og í nóvemberspánni, en þar vegast á jákvæðari horfur um vöxt þjóðarútgjalda og lakari horfur um utanríkisviðskipti. Nú er talið að jákvæður árshagvöxtur taki að mælast á ný á öðrum fjórðungi ársins og að hann verði 2,5% á árinu öllu en í nóvember var spáð 2,3% vexti. Þá er spáð 5,1% hagvexti árið 2022 og 4,1% árið 2023.

Atvinnuleysi nái hámarki á fyrri hluta ársins

Seðlabankinn telur að atvinnuleysi muni ná hámarki á fyrri hluta ársins og taki svo að minnka um mitt árið. Er því spáð að skráð atvinnuleysi verði rúmlega 10% á árinu.

Nú er gert ráð fyrir að verðbólga á fyrsta ársfjórðungi þessa árs verði um 3,9%, en það er heldur meira en í nóvemberspánni. Bankinn telur að verðbólgan taki hins vegar að hjaðna og mælist 3,3% á öðrum ársfjórðungi og náist svo inn fyrir markmið bankans á fjórða ársfjórðungi.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK