„Erum mjög sátt með gjaldeyrismarkaðinn“

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagði á fundi peningastefnunefndar Seðlabankans að nefndin væri mjög sátt með stöðu gjaldeyrismarkaðsins og að 750 milljóna evra lánið sem ríkissjóður tók á 0% vöxtum nýlega sé að jákvætt og að einhverju leyti viðurkenning á góðri hagstjórn á tímum faraldurins.

Fyrr í dag var það kynnt að peningastefnunefnd hefði ákveðið að halda vöxtum bankans óbreyttum.Meg­in­vext­ir bank­ans, vext­ir á sjö daga bundn­um inn­lán­um, verða því áfram 0,75%. Stýri­vext­ir hafa aldrei verið jafn lág­ir á Íslandi og nú. Seðlabank­inn lækkaði stýri­vexti um 2,25 pró­sent­ur í fyrra til þess að bregðast við Covid-19.

Vísbendingar um viðsnúning atvinnuleysis

Sam­kvæmt nýrri þjóðhags­spá Seðlabank­ans sem birt er í fe­brú­ar­hefti Pen­inga­mála virðist inn­lend eft­ir­spurn hafa verið þrótt­meiri í fyrra en áður var áætlað og efna­hags­sam­drátt­ur­inn því verið minni en bank­inn spáði í nóv­em­ber. Í upphafi fundar fór Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, yfir helstu atriðin í peningamálum og þjóðhagspánna.

Sagði hann að faraldurinn væri í mikilli sókn erlendis og víða hafi verið hert á sóttvörnum. Það hafi bitnað á efnahagsbata þar sem og útflutningshorfum Íslendinga. Horfur væri á hægari vexti útflutnings og þar með rýrnun viðskiptakjara.

Samdráttur síðasta árs var minni en gert var ráð fyrir og Seðlabankinn spáir nú örlítið meiri hagvexti árið 2021. Atvinnuleysi er komið yfir 10% en vísbendingar eru um að viðsnúningur verði á vinnumarkaði. Verðbólga er komin yfir 4% en horfur eru á að hún hjaðni þegar líður á árið.

Verðbólguvæntingar eru enn við markmið, sérstaklega til meðallangs og lengri tíma. Þrátt fyrir aukna áraun sem rekja má til lækkunar íslensku krónunnar undanfarið virðist verðbólgumarkmið því enn halda.

Heimilin geti haft áhrif af öðru en gengi krónunnar

Ásgeir var spurður um lánið sem ríkissjóður tók á dögunum upp á 750 milljónir evra, á 0% vöxtum. Sagði hann það vera jákvætt og á mun betri kjörum en hefðu boðist áður. Að einhverju leyti væri það viðurkenning á því að hagstjórnaryfirvöldum hefði tekist að einhverju leyti vel að takast á við faraldurinn. Varðandi verðbólguna þá mætti rekja hana til veikari krónu.

Peningastefnunefnd var spurð á fundinum hvort að spá þeirra um íbúðafjárfestingu, sem er tiltölulega bjartsýn, væri mögulega of bjartsýn. Þórarinn sagði það vera eitt það erfiðasta að spá fyrir um og að Seðlabankinn væri ekki endilega bjartsýnni en aðrir.

Þá var seðlabankastjóri spurður hvort að hann væri sáttur við gengi krónunnar núna og svaraði hann því játandi. „Við erum mjög sátt með gjaldeyrismarkaðinn. Markaðurinn er í tiltölulega góðu jafnvægi miðað við óvissuna sem er til staðar þá var ákveðið markmið að reyna halda gjaldeyrismarkaðnum stöðugum til að heimilin gætu þá haft áhrif af einhverju öðru en gengi krónunnar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK