Þórdís vill sjá vetnisframleiðslu á Íslandi

Þórdís Kolbrún Gylfadóttir Reykfjörð, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Þórdís Kolbrún Gylfadóttir Reykfjörð, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Ljósmynd/Aðsend

Þórdís Kolbrún Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, sagði á fundi Samorku í dag að hún vildi að tekin yrði ákvörðun um að hefja vetnisframleiðslu hér á landi.

Þórdís tók þátt í pallborðsumræðum á fundinum sem bar yfirskriftina Græn endurreisn.

Þórdís sagði Íslendinga að einhverju leit lifa á fornri frægð þegar kemur að orkumálum, en hér hafi verið ákveðið að leggja hitaveitur og nýta endurnýjanlega orku. Þá sagði Þórdís Íslendinga ekki mega sofna á verðinum, halla sér aftur og bíða eftir að tækifærin komi. Alls staðar annars staðar í heiminum sé verið að þróa endurnýjanlega orkugjafa sem muni veita orkumarkaði á Íslandi samkeppni. 

Við höfum ákveðið forskot, en það verður ekki hjá okkur endalaust. Ef við tökum þessa ákvörðun þýðir það líka að regluverkið þarf að styðja við það, sem er í dag of flókið, það þarf frekari raforkuframleiðslu í þau verkefni og það þarf þá sátt um það,“ sagði Þórdís.

Páll Erland, framkvæmdastjóri Samorku.
Páll Erland, framkvæmdastjóri Samorku. Ljósmynd/Aðsend

Frumvörp sem takmarka tækifærin

Páll Erland, framkvæmdastjóri Samorku, sagði að um allan heim sé verið að huga að endurreisn hagkerfa eftir faraldurinn, samhliða því að draga úr kolefnisfótsporum. Þá sagði hann það blasa við að spurn eftir grænni orku og grænum lausnum muni aukast mikið. 

Páll sagði frumvörp liggja fyrir á Alþingi sem beinlínis takmarki aðgengi þjóðarinnar og komandi kynslóða að endurnýjanlegum orkuauðlindum sínum á stórum hluta landsins og takmarki þar með þátttöku Íslands í þeirri vegferð. Vísar Páll þá í rammaáætlun þrjú og frumvarp um miðhálendisþjóðgarð.

Hann sagði þau einnig draga verulega  úr möguleikum á styrkingu eða uppbyggingu grænna orkuinnviða sem framtíðin gæti kallað á.

Ísland hefur allt til að bera til að grípa þau tækifæri sem við okkur blasa og ná fram grænni endurreisn ef við bara tökum höndum saman og látum af því verða,“ sagði Páll.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK