„Birtingarmynd þessara tíðinda á markaðinum“

Hlutabréf Icelandair hafa sveiflast mikið síðan félagið fór í hlutafjárútboð …
Hlutabréf Icelandair hafa sveiflast mikið síðan félagið fór í hlutafjárútboð á síðasta ári. mbl.is/Árni Sæberg

Gengi Icelandair hefur undanfarin misseri sveiflast í samræmi við væntingar í tengslum við faraldurinn og nú síðustu mánuði í tengslum við væntingar til bóluefna til að sporna við faraldrinum. Þetta mátti vel sjá á markaði í morgun þegar hlutabréf Icelandair lækkuðu um rúmlega 13%, þó að lækkunin hafi nú gengið aðeins til baka, en um klukkan 13:00 nam lækkunin 11,4%. Kom þessi lækkun í kjölfar þess að ljóst varð að ekkert yrði af bólusetningarrannsókn lyfjaframleiðandans Pfizer hér á landi í gær, en þau tíðindi bárust ekki fyrr en eftir lokun markaða.

Stefán Broddi Guðjónsson, sérfræðingur hjá markaðsviðskiptum Arion banka, segir í samtali við mbl.is að lækkunin í dag sé „birtingarmynd þessara tíðinda á markaðinum“. Bendir hann á að bréf Icelandair hafi frá útboðinu á síðasta ári sveiflast mikið í tengslum við tíðindi af bóluefnum hér heima og erlendis.

Stefán Broddi Guðjónsson, sérfræðingur hjá markaðsviðskiptum Arion banka.
Stefán Broddi Guðjónsson, sérfræðingur hjá markaðsviðskiptum Arion banka.

Þannig hafi verð Icelandair hækkað síðustu daga og þar hafi væntanlega spilað inn í að aðilar á markaðinum hafi eygt að með bólusetningarátaki færi Icelandair fyrr á loft en ella. Það hefði skilað félaginu verulega betri afkomu og tekjum og þannig haft áhrif á verð og verðlagsvæntingar.

Segir Stefán að tíðindin hafi verið vonbrigði sem komi fram í verðlækkun í morgun. Þróun veirufaraldursins og hversu vel gengur að bólusetja hér heima og erlendis ræður miklu um hvenær Icelandair kemst á skrið sem og ferðaþjónustan. Það hefur eðli máls samkvæmt áhrif á verðþróun bréfa Icelandair og er risastórt mál fyrir hagkerfið í heild.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK